Það er gömul saga og ný að með frelsi getur orðið til eitthvað nýtt. Frelsi og sköpun haldast í hendur. Þegar við erum frjáls getum við verið sjálfráð, getum tekið ákvarðanir, stjórnað eigin gerðum. Frelsi og sjálfræði eru forsendur þess að geta notið eigin þekkingar og hæfileika, – skapað nýtt.
Starfsánægja er til dæmis tengd frelsi og sjálfræði. Stjórn á eigin verkefnum tengist vellíðan í vinnu. Sá starfsmaður sem býr við mikið álag en getur jafnframt haft einhverja stjórn á verkefnum sínum er líklegri til að líða betur í vinnunni en sá sem býr við sama álag en getur ekki haft stjórn á eigin verkefnum. Frelsi í vinnu fylgir um leið ábyrgð, til dæmis ábyrgð á að fylgja grundvallarreglum vinnustaðarins, siðareglum, reglum um öryggi og fleira.
Sama gildir um almenna vellíðan og lífsgæði. Einstaklingur sem er frjáls og sjálfráður er líklegri til að líða vel. Þetta er grunnstef í heilsueflingu og forvörnum. Og frelsinu hér fylgir líka ábyrgð. Markmið í lýðheilsustarfi er að efla frelsi og sjálfsbjargargetu einstaklinganna og þar með ábyrgð hvers og eins á eigin viðhorfum og ákvörðunum.
Sömu lögmál gilda um fyrirtæki og rekstur. Skipulagsheild sem er frjáls og byggir starf sitt á eigin forsendum er líklegri til að ná árangri sem sú sem er háð skilyrðum annarra. Hér gildir líka lögmálið um frelsi og ábyrgð, ábyrgð á að fylgja lögum og reglum sem samfélagið setur.
Hlutverk samfélagsins er að standa vörð um frelsi og sjálfræði einstaklinga, hópa og skipulagsheilda. Á þessum grunni verður til fjölbreytileiki þar sem nýjum hugmyndum er fagnað, ólík sjónarmið eru dýrmæt og þekking og þarfir hvers og eins skipta máli. Þetta eru einkenni fagmennsku og vitundar um siðgæði. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er ályktað svo að þessu sé ábótavant hér á landi.
Í ályktun Bjartar framtíðar eru fjölbreytilleiki og frelsi grunnstefin. Fjölbreytileiki mótar hugmyndir flokksins um velferðarmál, menntamál, viðskipti og stjórnsýslu (bjortframtid.is).
Aukið frelsi þarf ekki að kalla á ný útgjöld. Aukin ábyrgðartilfinning þarf ekki að kosta mikið. Meiri fagmennska þarf heldur ekki að kosta mikið. Frelsi, ábyrgð og fagmennska kalla á viðhorf og ákvarðanir. Við eigum ýmislegt upp í erminni í þessum efnum. Við getum hæglega náð í meira frelsi, ábyrgð og fagmennsku til að skapa hér betri líðan, betri vinnustaði, betri stjórnun, betri stjórnsýslu og betri stjórnmál. – Betri og bjartari framtíð.