Monthly Archives: February 2013

Getum við vandað okkur betur og náð betri árangri?

Það er gömul saga og ný að með frelsi getur orðið til eitthvað nýtt. Frelsi og sköpun haldast í hendur. Þegar við erum frjáls getum við verið sjálfráð, getum tekið ákvarðanir, stjórnað eigin gerðum. Frelsi og sjálfræði eru forsendur þess að geta notið eigin þekkingar og hæfileika, – skapað nýtt.

Starfsánægja er til dæmis tengd frelsi og sjálfræði. Stjórn á eigin verkefnum tengist vellíðan í vinnu. Sá starfsmaður sem býr við mikið álag en getur jafnframt haft einhverja stjórn á verkefnum sínum er líklegri til að líða betur í vinnunni en sá sem býr við sama álag en getur ekki haft stjórn á eigin verkefnum. Frelsi í vinnu fylgir um leið ábyrgð, til dæmis ábyrgð á að fylgja grundvallarreglum vinnustaðarins, siðareglum, reglum um öryggi og fleira.

Sama gildir um almenna vellíðan og lífsgæði. Einstaklingur sem er frjáls og sjálfráður er líklegri til að líða vel. Þetta er grunnstef í heilsueflingu og forvörnum. Og frelsinu hér fylgir líka ábyrgð. Markmið í lýðheilsustarfi er að efla frelsi og sjálfsbjargargetu einstaklinganna og þar með ábyrgð hvers og eins á eigin viðhorfum og ákvörðunum.

Sömu lögmál gilda um fyrirtæki og rekstur. Skipulagsheild sem er frjáls og byggir starf sitt á eigin forsendum er líklegri til að ná árangri sem sú sem er háð skilyrðum annarra. Hér gildir líka lögmálið um frelsi og ábyrgð, ábyrgð á að fylgja lögum og reglum sem samfélagið setur.

Hlutverk samfélagsins er að standa vörð um frelsi og sjálfræði einstaklinga, hópa og skipulagsheilda. Á þessum grunni verður til fjölbreytileiki þar sem nýjum hugmyndum er fagnað, ólík sjónarmið eru dýrmæt og þekking og þarfir hvers og eins skipta máli. Þetta eru einkenni fagmennsku og vitundar um siðgæði. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er ályktað svo að þessu sé ábótavant hér á landi.

Í ályktun Bjartar framtíðar eru fjölbreytilleiki og frelsi grunnstefin. Fjölbreytileiki mótar hugmyndir flokksins um velferðarmál, menntamál, viðskipti og stjórnsýslu (bjortframtid.is).

Aukið frelsi þarf ekki að kalla á ný útgjöld. Aukin ábyrgðartilfinning þarf ekki að kosta mikið. Meiri fagmennska þarf heldur ekki að kosta mikið. Frelsi, ábyrgð og fagmennska kalla á viðhorf og ákvarðanir. Við eigum ýmislegt upp í erminni í þessum efnum. Við getum hæglega náð í meira frelsi, ábyrgð og fagmennsku til að skapa hér betri líðan, betri vinnustaði, betri stjórnun, betri stjórnsýslu og betri stjórnmál. – Betri og bjartari framtíð.

Fjolbreytileiki-Stjornkerfi

 

Getur heilsugæsluþjónustan verið aðgengilegri?

Undanfarin misseri hefur orðið æ ljósara að heilsugæsluþjónustunni, til dæmis á Reykjavíkursvæðinu, tekst mismunandi vel að mæta þörfum almennings. Þeir sem þurfa á þjónustunni að halda segja frá því að það getur tekið allt að tvær vikur að fá tíma hjá lækni og þrátt fyrir að þjónusta hjúkrunarfræðinga sé ein af grunnstoðum heilsugæsluþjónustu hefur komið í ljós að víða er  örðugt að fá tíma hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðvum. Upplýsingar um þjónustu heilsugæslustöðvanna eru ekki aðgengilegar og tímapantanir kalla oft á tíðum á flókna afgreiðslu og tafsama.

Mikil ásókn í þjónustu bráðamóttökudeilda Landspítalans vegna almennra kvilla eru til merkis um að heilsugæslan virkar ekki sem skyldi sem fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustunnar. Miðað við niðurskurð undanfarinna missera hefur sjaldan verið jafn brýnt að nýta heilbrigðisþjónustuna á skilvirkan hátt. Það er mikilvægt að erindum sé sinnt þar sem hentugast og hagkvæmast er að veita viðeigandi þjónustu.

Heilsugæslustöðvar og fagfólk sem þar starfar getur í mörgum tilvikum metið og meðhöndlað heilbrigðisvanda sem fólk leitar með til bráðaþjónustu Landspítala. Til dæmis ef um er að ræða almenna kvilla. Má nefna að algengasta ástæða komu á bráðamóttökudeild barna á Landspítala er hægðatregða. Slíkan vanda ætti að vera unnt að þjónusta á heilsugæslustöð og með því móti má veita foreldrum og barni góða og hagkvæma þjónustu. Ekki er blöðum um það að fletta að í slíkum tilvkum er þjónusta heilsugæslustöðvar einfaldari og ódýrari kostur en bráðaþjónusta á sjúkrahúsi. Fleiri dæmi af svipuðum toga renna stoðum undir mikilvægi þess að almenningur fá betri leiðsögn varðandi hvar er best að leita þjónustu og að sú þjónusta sé  aðgengileg.

Til þess að nýting heilsugæsluþjónustu sé sem best þarf að bæta skipulag þjónustunnar sjálfrar og um leið að kynna framboð á þjónustu fyrir almenningi. Mikilvægt er að starfsfólk og stjórnendur heilsugæslustöðvanna kynni á markvissan hátt hvers almenningur má vænta af þjónustu stöðvanna. Í þessu samhengi er brýnt að nota miðla sem eru aðgengilegir fyrir almenning, t.d. vefmiðla og samfélagsmiðla. Með slíkum umbótum má bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu og draga verulega úr álagi og þar með kostnaði vegna bráðaþjónustu á sjúkrahúsi.

Nýleg umfjöllun um málið er hér.

Ályktun Bjartrar framtíðar um heilsugæslu

BF-Heilsugaesla

 

Hvatning í starfi – Ytri og innri hvatar

Alla daga reynum við að hvetja okkur sjálf og hvert annað til góðra verka. Aðferðirnar sem við notum byggja á þörfum sem búa innra með okkur. Til dæmis hvetjum við börn okkar til að vera dugleg og sjálfstæð því börn hafa þörf fyrir að finna að takast á við eitthvað nýtt, þroskast og vaxa. Börn hafa líka þörf fyrir að vera viðurkennd. Sama gildir um fullorðna. Maslow sýndi þetta með þarfapírmýda sínum þar sem grunnþarfirnar eru matur og skjól og efst á eru svo þarfir um að njóta sín sem manneskja, vaxa og þroskast.

Sem starfsmenn fáum við hvatningu frá samstarfsfólki og yfirmönnum og sú hvatning byggir líka á þörfum okkar, þeim sömu og Maslow benti á. Fyrir meira en fimmtíu árum setti Herzberg fram mjög áhugaverða kenningu um hvatningu í starfi þar sem hann bendir á tvo flokka hvata; innri hvata (intrinsic motivators) og ytri hvata (extrinsic motivators). Sérhver starfsmaður hefur þörf fyrir bæði innri og ytri hvata og þar með líka þörf fyrir innri og ytri umbun.

Ytri hvatar eru til dæmis laun og ýmis hlunnindi t.d. kort í ræktina, bílahlunnindi, afslættir, sérstök frí, bónusar og fleira í þessum dúr. Hér beinist hvatningin að ytri þáttum starfsins. Herzberg útskýrði vel og vandlega að ytri hvatar og ytri umbun væri nauðsynleg en hins vegar gæti ytri umbun aldrei verið nægjanleg. Rannsóknir Herzberg sýndu að þrátt fyrir að stjórnendur leggðu ofuráherslu á ytri þætti væri ekki mögulegt að tryggja ánægju starfsfólks bara með þeim aðferðum. Annað þyrfti að koma til og þá hvatningu kallaði Herzberg innri hvatningu.

Innri hvatar snúa að starfinu sjálfu, samskipti sem starfið felur í sér og tækifæri starfsmannsins til að vaxa og dafna í starfi. Innri starfshvöt felur í sér tækifæri til að njóta þess sem starfið sjálft felur í sér og um þann tilgang sem starfsmaður sér með starfi sínu. Innri umbun er upplifun starfsmanns af starfi sínu og getur til dæmis falist í viðmóti skjólstæðinga eða viðskiptavina, þakklæti, brosi eða árangri sem viðskiptavinur nær vegna þjónustu starfsmannsins. Innri umbun felst líka í þroska og lærdómi sem starfsmaður nýtur vegna starfa sinna og verkefna. Innri starfshvöt er nátengd hugmyndum um tilgang starfa, gildi hugsjónar og samsfélagslegarar ábyrgðar.

Innri starfshvöt nærist á frelsi og sjálfræði í starfi sem eru forsendur sköpunar.

Ályktun Bjartrar framtíðar um íslenska stjórnkerfið.

BF-Frjals- Skapandi

Það er sími til þín – Betri heilbrigðisþjónusta í gegnum síma

Nú þarf að standa vörð um velferðarþjónustuna og finna fleiri skilvirkar og góðar leiðir til að halda áfram að efla þjónustu sem við getum öll verið stolt af. Einlægur áhugi fagfólks að láta gott af sér leiða er hornsteinn þeirrar þjónustu sem við búum við. Til að þekking og færni starfsfólksins njóti sín er mikilvægt að stjórnendur og forysta velferðarþjónustuna hafi opin augu fyrir hugmyndum og tækifærum allra starfsmanna. Meðal starfsfólksins leynist ótrúlegur kraftur og sköpunarmáttur.

Ein af þeim hugmyndum sem heilbrigðisstarfsfólk hefur kynnt stjórnvöldum undanfarna áratugi er gildi fjarskiptatæki í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Víða um heim hefur um áratugaskeið verið þróaðar aðferðir til að veita örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu í gegnum síma sem er hentugasta form fjarskiptatækni. Með þessari aðferð má veita fólki fræðslu og sérhæfða ráðgjöf og leiðsögn. Til dæmis má nota þessa tækni í heimahjúkrun þar sem einstaklingi er veitt aðstoð varðandi lyf,  aðstoð við sárameðferð eða aðra meðferð eftir aðgerðir á sjúkrahúsi. Stuðningur og ráðgjöf í gegnum síma er ómetanlegur.

Í seinni tíð hafa vefmyndavélar komið að góðu gagni í þessari þjónustu. Sömuleiðis hafa verið tilraunir með nýtingu snjallasíma til að fylgjast með og veita ráðgjöf eftir skurðaðgerðir. Allar þessar leiðir lofa mjög góðu og er full ástæða til að ætla að hér á landi geti nýting fjarskiptatækni verið mjög ákjósanlegur kostur til að efla þjónustuna sem fyrir er bæði á vettvangi heilsugæslu og sjúkrahúsa. Framtak á þessum vettvangi utan opinberrar velferðarþjónustu felur í sér margvísleg tækifæri.

Hugsum lengra

 

Efla sjálfstæði skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar

Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar þar að vera skapandi og byggð á bestu þekkingu. Við uppbygginguna þarf að taka mið að þekkingu og færni allra heilbrigðisstétta um leið og þarfir skjólstæðinganna eru leiðarljós.

Skapa þarf farveg fyrir þjónustu allra faghópa. Skjólstæðingarnir þurfa að hafa góðar upplýsingar um hvar og hvernig þjónustu þeir mega vænta og greiðan aðgang að þessari þjónustu.

Skjólstæðingar velferðarþjónustunnar eru mikilvægustu eftirlitsaðilar um gæði þjónustunnar. Mat þeirra á þjónustunni skapar nauðsynlegt aðhald og eykur líkur á að þjónustan sé skilvirk og áreiðanleg.

Góðar upplýsingar um heilbrigðis- og velferðarmál eru mikilvægar til að efla sjálfstæði skjólstæðinganna og efla getu þeirra til að hafa áhrif á eigin heilsu, aðstæður og þjónustu.

Skapa þarf farveg fyrir sjónarmið skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar þannig að þarfir þeirra og væntingar séu til grundvallar skipulagi þjónustunnar. Traust og góð samskipti eru mikilvæg. Nýta má gagnvirk vefsamskipti í þessu sambandi.

Heilbrigdiskerfi fjolbreytt

Rétt meðferð á réttum stað – Betri heilbrigðisþjónusta

Aðgengi að heilsugæslu er ekki eins og best verður á kosið. Eitt af því sem sérfræðingar inn heilbrigðisþjónustunnar og almenningur hafa bent á undanfarin misseri er hversu gríðarlega mikilvægt það er að bæta skipulag heilsugæslunnar til þessa bæta aðgengi að þjónustu sérfræðinga þar. Einstaklingar og fjölskyldur finna sig knúin til að leita til bráðaþjónustu sjúkrahúsa með viðfangsefni sem eiga í raun heima í heilsugæslunni.

Heilsugæslan er grunnþjónusta og ætti að vera fyrsti staðurinn sem fólk leitar til með heilbrigðisvanda. Hins vegar er það svo nú að til dæmis á bráðamóttökudeild barna er algengasta ástæða komu þangað vandamál vegna hægðatregðu. Þessi staðreynd færir heim sanninn um það að heilsugæsluþjónustan þarf að vera bæði aðgengilegri og skilvirkari. Foreldrar barna með vanda af þessum toga ættu að finna til öryggis gagnvart þjónustu heilsugæslunnar og ættu að geta leitað þangað á auðveldan hátt, annað hvort með símtali eða með viðtali á stofu til hjúkrunarfræðings eða læknis. Þjónusta heilsugæslunnar er hagkvæm og þar á að vera veitt örugg og skilvirk þjónusta.

Heilbr-heilsug-sjukrahus