Getur heilsugæsluþjónustan verið aðgengilegri?

Undanfarin misseri hefur orðið æ ljósara að heilsugæsluþjónustunni, til dæmis á Reykjavíkursvæðinu, tekst mismunandi vel að mæta þörfum almennings. Þeir sem þurfa á þjónustunni að halda segja frá því að það getur tekið allt að tvær vikur að fá tíma hjá lækni og þrátt fyrir að þjónusta hjúkrunarfræðinga sé ein af grunnstoðum heilsugæsluþjónustu hefur komið í ljós að víða er  örðugt að fá tíma hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðvum. Upplýsingar um þjónustu heilsugæslustöðvanna eru ekki aðgengilegar og tímapantanir kalla oft á tíðum á flókna afgreiðslu og tafsama.

Mikil ásókn í þjónustu bráðamóttökudeilda Landspítalans vegna almennra kvilla eru til merkis um að heilsugæslan virkar ekki sem skyldi sem fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustunnar. Miðað við niðurskurð undanfarinna missera hefur sjaldan verið jafn brýnt að nýta heilbrigðisþjónustuna á skilvirkan hátt. Það er mikilvægt að erindum sé sinnt þar sem hentugast og hagkvæmast er að veita viðeigandi þjónustu.

Heilsugæslustöðvar og fagfólk sem þar starfar getur í mörgum tilvikum metið og meðhöndlað heilbrigðisvanda sem fólk leitar með til bráðaþjónustu Landspítala. Til dæmis ef um er að ræða almenna kvilla. Má nefna að algengasta ástæða komu á bráðamóttökudeild barna á Landspítala er hægðatregða. Slíkan vanda ætti að vera unnt að þjónusta á heilsugæslustöð og með því móti má veita foreldrum og barni góða og hagkvæma þjónustu. Ekki er blöðum um það að fletta að í slíkum tilvkum er þjónusta heilsugæslustöðvar einfaldari og ódýrari kostur en bráðaþjónusta á sjúkrahúsi. Fleiri dæmi af svipuðum toga renna stoðum undir mikilvægi þess að almenningur fá betri leiðsögn varðandi hvar er best að leita þjónustu og að sú þjónusta sé  aðgengileg.

Til þess að nýting heilsugæsluþjónustu sé sem best þarf að bæta skipulag þjónustunnar sjálfrar og um leið að kynna framboð á þjónustu fyrir almenningi. Mikilvægt er að starfsfólk og stjórnendur heilsugæslustöðvanna kynni á markvissan hátt hvers almenningur má vænta af þjónustu stöðvanna. Í þessu samhengi er brýnt að nota miðla sem eru aðgengilegir fyrir almenning, t.d. vefmiðla og samfélagsmiðla. Með slíkum umbótum má bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu og draga verulega úr álagi og þar með kostnaði vegna bráðaþjónustu á sjúkrahúsi.

Nýleg umfjöllun um málið er hér.

Ályktun Bjartrar framtíðar um heilsugæslu

BF-Heilsugaesla

 

Bættu við athugasemd