Monthly Archives: October 2016

Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar og fjármögnun

Björt framtíð leggur áherslu á ábyrga ákvarðanatöku byggða á vandaðri áætlanagerð.  Auka þarf a framlag til heilbrigðisþjónustu og um leið þarf að nýta betur það fé sem varið er til þjónustunnar nú þegar. Vísbendingar eru um að nýta megi betur fé sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar.

Með því að gera skýrari samninga um þjónustu sem ríkið kaupir má betur tryggja hagkvæma nýtingu fjár. Auka þarf eftirlit með ákveðnum þáttum þjónustunnar varðandi meðferð fjár og um aðgengi og þörf á þjónustu samanber nýlegar fréttir og orð landlæknis þar um.  Björt framtíð leggst eindregið gegn því að heilbrigðisþjónusta sé rekin í gróðaskyni.

Björt framtíð leggur áherslu á að haldið verið áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og að tryggja aðgengi einstaklinga um land allt að þverfaglegri heilsugæsluþjónustu. Styrkja þarf þjónustu við aldraða og tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum fyrir einstaklinga sem það þurfa en jafnframt að bæta heimaþjónustu til að styðja sjálfstætt líf einstaklinga.  Bætt aðgengi að heilsugæslu og heimaþjónustu kemur í veg fyrir að einstaklingar þurfi að leita dýrari úrræða.

Sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum landsins þarf að renna í auknum mæli til þjóðarinnar og þar með til að mæta þörf hennar fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Hér er einkum átt við auðlindir sjávar, orku jarðarinnar og náttúruperlur landsins.  Bætt skattheimta og eftirlit dregur úr skattaundanskotum sem nema hér á landi verulegum upphæðum sem nýtast munu til uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar.

Með því að efla forvarnir t.d. í tengslum við lífsstílssjúkdóma má draga úr kostnaði heilbrigðisþjónustunnar og úr kostnaði einstaklinga t.d. vegna lyfjanotkunar og langvarandi heilsufarsvanda. Hér er mikilvægt að takast á við vanda tengdan t.d. offitu, sykursýki, streitu og álagi. Með forvörnum stoðkerfisvanda má draga úr líkum á minnkaðri starfsgetu til hagsbóta fyrir einstaklingana og samfélagið allt.

Stærsti kostnaðarliður heilbrigðisstofnana eru laun starfsfólks. Mikivægt er að tryggja fullnægjandi mannafla þjónustunnar, nýta sérþekkingu hverrar starfstéttar á markvissan hátt, draga úr kostnaði vegna yfirvinnu og standa vörðu um heilsu, starfsgetu og starfsánægju allra starfsmanna. Árangursrík mannauðsstjórnun er mikilvægur liður í hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Björt framtíð leggur áherslu á heildræna nálgun og betri samþættingu heilbrigðisþjónustunnar. Þannig má auka skilvirkni og draga úr sóun.  Vísbendingar eru um að víða innan heilbrigðisþjónustunnar séu tækifæri til að einfalda skipulag og hagræða þannig að dregið sé úr sóun bæði einstaklinganna sem njóta þjónustunnar og þeirra sem þjónustuna veita.

sg-bf-_profilmynd

Hvernig getum við byggt upp heilbrigðisþjónustuna?

Eitt mikilvægast úrlausnarefni heilbrigðisþjónustunnar er að tryggja aðgengi einstaklinganna að þjónustu við hæfi. Þessi vandi blasir við á öllum stigum þjónustunnar. Í fyrsta lagi má nefna að mjög margir einstaklingar, bæði í þéttbýli og dreifbýli, geta ekki sótt góða heilsugæsluþjónustu. Góð heilsugæsluþjónusta felst m.a. í því að hver og einn sé skráður til þjónustu ákveðins læknis og ákveðins hjúkrunarfræðings og jafnframt að geta sótt þjónustu annarra heilbrigðisstétta, t.d. ljósmæðra, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og næringarfræðinga á viðkomandi heilsugæslustöð.

Í öðru lagi blasir við að fjöldi aldraðra fær ekki notið fullnægjandi heimaþjónustu né þjónustu hjúkrunarheimilis þegar þörf er á. Æ fleiri rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að efla ætti heimaþjónustu vegna þess að hún hefur í för með sér meiri lífsgæði og minni kostnað samanborið við dvöl á stofnunum.

Í þriðja lagi er aðgangur að sérfræðiþjónustu á mörgum sviðum ófullnægjandi og er þar ofarlega á blaði sálræn þjónusta. Þjónustu sálfræðinga, geðlækna og geðhjúkrunarfræðinga þarf að stórefla miðað við hve margir þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Þverfagleg heilsugæsla. Björt framtíð leggur áherslu á að byggja upp heilsugæslu með heildrænni og þverfaglegri nálgun þar sem þekking og reynsla margra heilbrigðisstétta er nýtt og tækni notuð á hagkvæman hátt. Þannig má stórbæta aðgengi að heilsugæslu með hagkvæmum og árangursríkum hætti.

Heimaþjónusta og hjúkrunarrými. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði. Samhliða þarf að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild.

Mannauður og nútímalegt skipulag. Mannauður heilbrigðisþjónustunnar er í forgrunni heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar og mikilvægi þess að stutt sé við heilbrigðisstarfsfólk með góðu starfsumhverfi og árangursríkri stjórnun. Með því að hlúa betur að heilbrigðisstarfsfólki má tryggja að heilbrigðisþjónustan sé eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að sér bæði ungt og reynslumikið heilbrigðisstarfsfólk.

Heildræn hugsun og skapandi nálgun. Heildræn hugsun og áætlanir til framtíðar eru grundvöllur farsællar uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar. Nútímalegt skipulag og árangursrík stjórnun glæðir sköpunarkraft starfsfólks og gerir fagfólki kleift að skapa árangursríkar lausnir og veita góða þjónustu. Gott starfsumhverfi laðar fram krafta og áhuga heilbrigðisstarfsfólks á að njóta þess að helga störf sín mikilvægu verkefni og að byggja þannig upp góða og örugga heilbrigðisþjónustu.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar og skipar annað sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður

Greinin var fyrst birt í Kjarnanum 18. október. 2016

sg-bf-_profilmynd