Eitt mikilvægast úrlausnarefni heilbrigðisþjónustunnar er að tryggja aðgengi einstaklinganna að þjónustu við hæfi. Þessi vandi blasir við á öllum stigum þjónustunnar. Í fyrsta lagi má nefna að mjög margir einstaklingar, bæði í þéttbýli og dreifbýli, geta ekki sótt góða heilsugæsluþjónustu. Góð heilsugæsluþjónusta felst m.a. í því að hver og einn sé skráður til þjónustu ákveðins læknis og ákveðins hjúkrunarfræðings og jafnframt að geta sótt þjónustu annarra heilbrigðisstétta, t.d. ljósmæðra, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og næringarfræðinga á viðkomandi heilsugæslustöð.
Í öðru lagi blasir við að fjöldi aldraðra fær ekki notið fullnægjandi heimaþjónustu né þjónustu hjúkrunarheimilis þegar þörf er á. Æ fleiri rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að efla ætti heimaþjónustu vegna þess að hún hefur í för með sér meiri lífsgæði og minni kostnað samanborið við dvöl á stofnunum.
Í þriðja lagi er aðgangur að sérfræðiþjónustu á mörgum sviðum ófullnægjandi og er þar ofarlega á blaði sálræn þjónusta. Þjónustu sálfræðinga, geðlækna og geðhjúkrunarfræðinga þarf að stórefla miðað við hve margir þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála.
Þverfagleg heilsugæsla. Björt framtíð leggur áherslu á að byggja upp heilsugæslu með heildrænni og þverfaglegri nálgun þar sem þekking og reynsla margra heilbrigðisstétta er nýtt og tækni notuð á hagkvæman hátt. Þannig má stórbæta aðgengi að heilsugæslu með hagkvæmum og árangursríkum hætti.
Heimaþjónusta og hjúkrunarrými. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði. Samhliða þarf að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild.
Mannauður og nútímalegt skipulag. Mannauður heilbrigðisþjónustunnar er í forgrunni heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar og mikilvægi þess að stutt sé við heilbrigðisstarfsfólk með góðu starfsumhverfi og árangursríkri stjórnun. Með því að hlúa betur að heilbrigðisstarfsfólki má tryggja að heilbrigðisþjónustan sé eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að sér bæði ungt og reynslumikið heilbrigðisstarfsfólk.
Heildræn hugsun og skapandi nálgun. Heildræn hugsun og áætlanir til framtíðar eru grundvöllur farsællar uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar. Nútímalegt skipulag og árangursrík stjórnun glæðir sköpunarkraft starfsfólks og gerir fagfólki kleift að skapa árangursríkar lausnir og veita góða þjónustu. Gott starfsumhverfi laðar fram krafta og áhuga heilbrigðisstarfsfólks á að njóta þess að helga störf sín mikilvægu verkefni og að byggja þannig upp góða og örugga heilbrigðisþjónustu.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar og skipar annað sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður