Nú er brýnt sem aldrei fyrr að vinna að úrbótum á starfsumhverfi Landspítala. Nýjar rannsóknir og mat starfsfólks benda á að bæta þarf aðstæður á sjúkrahúsinu sjálfu, skipulag starfsins og samskipti. Þessar áherslur eru ekki nýjar og fróðlegt að rifja upp skýrslu sem var skrifuð í nóvember árið 2003 sem byggð var á þremur könnunum um starfsumhverfi sem gerðar höfðu verið um viðhorf starfsfólks til aðstæðna og skipulags. Tillögur voru settar fram í ljósi niðurstaðna þessara kannana með áherslu á öryggi og gæði þjónustunnar, einkum miðað við starfsaðstæður, starfsgetu og líðan starfsfólks Landspítala
Hér fyrir neðan eru tillögurnar sem settar voru fram um úrbætur á Landspítala í nóvember árið 2003 (skýrslan í heild fylgir).
Ef til vill mætti nýta sömu tillögur að úrbótm nú í nóvember árið 2013?
,,Samantekt skýrslna um aðstöðu og viðhorf starfsmanna á LSH og tillögur til úrbóta. Nóvember 2003″, bls. 3 – 4.
II. Tillögur*
A. Viðunandi aðbúnaður – Umbætur, öryggi og eðlileg viðmið
- Vinna þarf markvisst að því að laða að starfsmenn til spítalans, einkum til hjúkrunarstarfa og almennra starfa.
- Hraða þarf umbótum á aðbúnaði starfsmanna skv. lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (nr. 46/1980) og sérstökum viðmiðum um heilbrigðisstofnanir. Koma má á vinnuhópi starfsmanna, öryggisnefndar, fulltrúa skrifstofu tækni og eigna og etv. fulltrúa frá VER til að vinna að þessum umbótum.
- Bæta skrifstofuaðstöðu og aðstæður á deildum (s.s. kaffistofa, stærð vaktar, aðstaða f. nemendur, hreinlæti og öryggi). Fullnægjandi aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til viðtala við sjúklinga og aðstandendur og til samráðsfunda.
- Bæta þarf sérstaklega aðstöðu til hvíldar og hreinlætis fyrir þá sem þurfa að sofa á vinnustað.
- Taka þarf upp fyrri umræður við stjórnendur eldhúss um aðgengi að mat að nóttu til.
- Gangainnlagnir eiga ekki að koma fyrir nema í undantekningatilvikum því illmögulegt er að veita sjúklingum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu með þeim hætti.
B. Persónuleg samskipti – Sýnilegir stjórnendur, sviðsstjórar og yfirstjórn
- Hvetja þarf til aukinna persónulegra samskipta við miðlun upplýsinga.
- Upplýsingamiðlun þarf að vera hnitmiðuð með tilliti til tímasetninga og viðtakenda.
- Beinn póstur til starfsmanna getur oft skilað betri árangri en tilvísanir í heimasíðu.
- Efla þarf opna umræðu og skapa tengsl á milli þeirra sem ræða áætlanir og ákvarðanir og þeirra sem málið varðar á vettvangi.
- Leita þarf leiða til að gera sviðsstjórum kleift að vera sýnilegir og aðgengilegir starfsmönnum og til að miðla upplýsingum með persónulegum hætti.
- Sviðsstjóra þarf að hvetja og styrkja til að virkja betur þann stjórnendahóp sem þeir hafa. Líta má til tillagna deildar gæða og innri endurskoðunar um breytingar á verkefnum gæðastjóra sviða og sviðsstjórnar í þessu sambandi.
- Yfirstjórn og skýr stefna hennar þarf að vera sýnileg starfsmönnum.
- Einstökum starfsmönnum, hópum, deildum og sviðum verði veittar upplýsingar um vel unnin störf og einnig þegar miður gengur og úrbóta er þörf.
- Hvetja starfsmenn frekar en letja til að tjá sig um fagleg málefni og alls þess sem stuðlað getur að bættri þjónustu spítalans.
C. Starfslýsingar, afmörkun og ábyrgð – Þátttaka starfsmanna í ákvarðanatöku
- Yfirstjórn og stjórnendur hafi skýra stefnu hvað varðar þá þjónustu sem spítalinn og deildir hans bjóða (s.s. bráðamótttaka, göngudeildarþjónusta, kennsla).
- Leggja þarf áherslu á notkun starfslýsinga (afmörkun, ábyrgð) og verkferla. Slíkt styrkir samstarf stétta og sjálfræði þeirra, eflir traust og bætir gæði þjónustu.
- Virkja þarf starfsmenn til þátttöku í stefnumótun og ákvörðunum á öllum stigum, slíkt myndi í mörgum tilvikum bæta ákvarðanatöku og með því er enn frekar litið á starfsmenn sem liðsmenn spítalans.
- Nýta þarf betur þekkingu og sköpunarmátt starfsmanna með þátttöku í nefndum og ráðum og litið á slíkt framlag sem hluta af vinnu þeirra við spítalann.
- Efla þarf formlega þátttöku starfsmannaráðs, læknaráðs og hjúkrunarráðs við stefnumótun og ákvarðanatöku.
- Vinnulag nefnda og ráða þarf að vera vel skipulagt og tryggt að niðurstöður af störfum þeirra séu öðrum sýnilegar og nýtanlegar.
Samantekt um kannanir á starfsumhverfi Landspítala í nóvember 2003 (pdf)