Category Archives: Heilsugæsla

Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar og fjármögnun

Björt framtíð leggur áherslu á ábyrga ákvarðanatöku byggða á vandaðri áætlanagerð.  Auka þarf a framlag til heilbrigðisþjónustu og um leið þarf að nýta betur það fé sem varið er til þjónustunnar nú þegar. Vísbendingar eru um að nýta megi betur fé sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar.

Með því að gera skýrari samninga um þjónustu sem ríkið kaupir má betur tryggja hagkvæma nýtingu fjár. Auka þarf eftirlit með ákveðnum þáttum þjónustunnar varðandi meðferð fjár og um aðgengi og þörf á þjónustu samanber nýlegar fréttir og orð landlæknis þar um.  Björt framtíð leggst eindregið gegn því að heilbrigðisþjónusta sé rekin í gróðaskyni.

Björt framtíð leggur áherslu á að haldið verið áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og að tryggja aðgengi einstaklinga um land allt að þverfaglegri heilsugæsluþjónustu. Styrkja þarf þjónustu við aldraða og tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum fyrir einstaklinga sem það þurfa en jafnframt að bæta heimaþjónustu til að styðja sjálfstætt líf einstaklinga.  Bætt aðgengi að heilsugæslu og heimaþjónustu kemur í veg fyrir að einstaklingar þurfi að leita dýrari úrræða.

Sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum landsins þarf að renna í auknum mæli til þjóðarinnar og þar með til að mæta þörf hennar fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Hér er einkum átt við auðlindir sjávar, orku jarðarinnar og náttúruperlur landsins.  Bætt skattheimta og eftirlit dregur úr skattaundanskotum sem nema hér á landi verulegum upphæðum sem nýtast munu til uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar.

Með því að efla forvarnir t.d. í tengslum við lífsstílssjúkdóma má draga úr kostnaði heilbrigðisþjónustunnar og úr kostnaði einstaklinga t.d. vegna lyfjanotkunar og langvarandi heilsufarsvanda. Hér er mikilvægt að takast á við vanda tengdan t.d. offitu, sykursýki, streitu og álagi. Með forvörnum stoðkerfisvanda má draga úr líkum á minnkaðri starfsgetu til hagsbóta fyrir einstaklingana og samfélagið allt.

Stærsti kostnaðarliður heilbrigðisstofnana eru laun starfsfólks. Mikivægt er að tryggja fullnægjandi mannafla þjónustunnar, nýta sérþekkingu hverrar starfstéttar á markvissan hátt, draga úr kostnaði vegna yfirvinnu og standa vörðu um heilsu, starfsgetu og starfsánægju allra starfsmanna. Árangursrík mannauðsstjórnun er mikilvægur liður í hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Björt framtíð leggur áherslu á heildræna nálgun og betri samþættingu heilbrigðisþjónustunnar. Þannig má auka skilvirkni og draga úr sóun.  Vísbendingar eru um að víða innan heilbrigðisþjónustunnar séu tækifæri til að einfalda skipulag og hagræða þannig að dregið sé úr sóun bæði einstaklinganna sem njóta þjónustunnar og þeirra sem þjónustuna veita.

sg-bf-_profilmynd

Hvernig getum við byggt upp heilbrigðisþjónustuna?

Eitt mikilvægast úrlausnarefni heilbrigðisþjónustunnar er að tryggja aðgengi einstaklinganna að þjónustu við hæfi. Þessi vandi blasir við á öllum stigum þjónustunnar. Í fyrsta lagi má nefna að mjög margir einstaklingar, bæði í þéttbýli og dreifbýli, geta ekki sótt góða heilsugæsluþjónustu. Góð heilsugæsluþjónusta felst m.a. í því að hver og einn sé skráður til þjónustu ákveðins læknis og ákveðins hjúkrunarfræðings og jafnframt að geta sótt þjónustu annarra heilbrigðisstétta, t.d. ljósmæðra, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og næringarfræðinga á viðkomandi heilsugæslustöð.

Í öðru lagi blasir við að fjöldi aldraðra fær ekki notið fullnægjandi heimaþjónustu né þjónustu hjúkrunarheimilis þegar þörf er á. Æ fleiri rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að efla ætti heimaþjónustu vegna þess að hún hefur í för með sér meiri lífsgæði og minni kostnað samanborið við dvöl á stofnunum.

Í þriðja lagi er aðgangur að sérfræðiþjónustu á mörgum sviðum ófullnægjandi og er þar ofarlega á blaði sálræn þjónusta. Þjónustu sálfræðinga, geðlækna og geðhjúkrunarfræðinga þarf að stórefla miðað við hve margir þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Þverfagleg heilsugæsla. Björt framtíð leggur áherslu á að byggja upp heilsugæslu með heildrænni og þverfaglegri nálgun þar sem þekking og reynsla margra heilbrigðisstétta er nýtt og tækni notuð á hagkvæman hátt. Þannig má stórbæta aðgengi að heilsugæslu með hagkvæmum og árangursríkum hætti.

Heimaþjónusta og hjúkrunarrými. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði. Samhliða þarf að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild.

Mannauður og nútímalegt skipulag. Mannauður heilbrigðisþjónustunnar er í forgrunni heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar og mikilvægi þess að stutt sé við heilbrigðisstarfsfólk með góðu starfsumhverfi og árangursríkri stjórnun. Með því að hlúa betur að heilbrigðisstarfsfólki má tryggja að heilbrigðisþjónustan sé eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að sér bæði ungt og reynslumikið heilbrigðisstarfsfólk.

Heildræn hugsun og skapandi nálgun. Heildræn hugsun og áætlanir til framtíðar eru grundvöllur farsællar uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar. Nútímalegt skipulag og árangursrík stjórnun glæðir sköpunarkraft starfsfólks og gerir fagfólki kleift að skapa árangursríkar lausnir og veita góða þjónustu. Gott starfsumhverfi laðar fram krafta og áhuga heilbrigðisstarfsfólks á að njóta þess að helga störf sín mikilvægu verkefni og að byggja þannig upp góða og örugga heilbrigðisþjónustu.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar og skipar annað sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður

Greinin var fyrst birt í Kjarnanum 18. október. 2016

sg-bf-_profilmynd

Björt framtíð heilbrigðisþjónustunnar.

Grein sem birtist í Kjarnanum 13. september 2016.

Björt framtíð heilbrigðisþjónustunnar

Við erum öll sammála um hversu brýnt er að hefjast handa um úrbætur í heilbrigðisþjónustunni.  En hvaða áherslur eru mikilvægastar til að tryggja örugga og aðgengilega heilbrigðisþjónustu hér á landi? Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa undanfarin ár sérstaklega beint sjónum að velferð barna og eldri borgara, bæði hvað varðar þjónustu innan og utan sjúkrahús. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á bætt aðgengi að þjónustu, til dæmis með frumvarpi um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu sem þingkona flokksins lagði fram og felur það í sér veruleg tækifæri til að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst í dreifðum byggðum landsins.

Heildræn hugsun í heilbrigðisþjónustu er grundvöllur langtímaárangurs og í því sambandi leggur Björt framtíð sérstaka áherslu á markvissar aðgerðir til að tryggja nægan mannafla í heilbrigðisþjónustunni. Við blasir alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum og í mörgum sérgreinum lækna blasir einnig við skortur. Þrátt fyrir nýja kjarasamninga þarf að gera enn betur til að laða að nægan fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem sér störf hér á landi sem heillandi kost þar sem starfsumhverfi og aðbúnaður gerir þeim bæði kleift að veita faglega og góða heilbrigðisþjónustu og lifa mannasæmandi og góðu lífi. Þekking sem byggir á áratuga rannsóknum um heilbrigt og aðlaðandi starfsumhverfi gerir okkur kleift að ráðast í úrbætur sem fela í sér langtímalausnir til hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Um leið og ráðist er í markvissar aðgerðir til að efla mannauð heilbrigðisþjónustunnar er mikilvægt að bæta skipulag og stefnu þannig að skjólstæðingarnir njóti þekkingar og færni þverfaglegs hóps starfsfólks, ekki síst innan heilsugæslunnar. Þar er mikilvægt að flétta saman þjónustu lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, sálfræðinga, félagsráðgjafa og fleiri stétta þannig að einstaklingar hafi aðgang að sem allra bestri þjónustu á hagkvæman og skilvirkan hátt. Þverfagleg nálgun og góð teymisvinna getur tryggt að snemma sé gripið inn í vanda og komið í veg fyrir að leita þurfi flókinna og dýrra úrræða.

Það er mikið fagnaðarefni að búið er að samþykkja nýtt frumvarp um greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu og þar með ætti að vera úr sögunni að einstaklingar standi frammi fyrir ofurháum reikningum vegna heilbrigðisþjónustu. Þak á upphæð sem hver einstaklingur greiðir hefur verið lækkað en betur má ef duga skal. Meðal þess sem þarf að vinna að er að þjónusta sálfræðinga falli undir sama hatt og önnur þjónusta sem og tannlæknaþjónusta. Það er algjört forgangsverkefni að tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu með lágmarkskostnaði einstaklinganna.

Heilbrigðisþjónusta hér á landi er að stórum hluta veitt á vettvangi sjálfstæðs reksturs en til þess að tryggja jafnt aðgengi, gæði og hagkvæma nýtingu fjármagns er mjög mikilvægt að bæta lagalega umgjörð og eftirlit. Sömuleiðis þarf að skerpa reglur og leiðbeiningar um samspil og samvinnu opinberrar þjónustu og þjónustu sem veitt er á stofum t.d. varðandi mat á gæðum, eftirfylgni og viðbrögð við frávikum og fylgikvillum.

Um leið og Björt framtíð fagnar nýjum áformum um byggingar öldrunarheimila er mjög miklvægt að stórefla heimaþjónustu til aldraðra. Með einstaklingsmiðaðri heimaþjónustu er stutt við sjálfstæði og lífsgæði aldraðra og sýnt hefur verið fram á að heimaþjónusta er hagkvæmt úrræði og getur í mörgum tilvikum hentað mun betur en vistun á stofnun.

Björt framtíð leggur áherslu á langtímahugsun í heilbrigðisþjónustu. Með því að byggja á reynslu og nýta nýja þekkingu til að endurskoða skipulag og starfsumhverfi getum við laðað að hæfileikaríkt heilbrigðistarfsfólk sem getur veitt örugga og góða þjónustu og staðið vörð um lífsgæði skjólstæðinganna og eflt um leið sín eigin lífsgæði, innan og utan vinnunnar.

thessi-aetlar-ad-breyta-stjornmalunum

SG-Anna-Gyda

Getur heilsugæsluþjónustan verið aðgengilegri?

Undanfarin misseri hefur orðið æ ljósara að heilsugæsluþjónustunni, til dæmis á Reykjavíkursvæðinu, tekst mismunandi vel að mæta þörfum almennings. Þeir sem þurfa á þjónustunni að halda segja frá því að það getur tekið allt að tvær vikur að fá tíma hjá lækni og þrátt fyrir að þjónusta hjúkrunarfræðinga sé ein af grunnstoðum heilsugæsluþjónustu hefur komið í ljós að víða er  örðugt að fá tíma hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðvum. Upplýsingar um þjónustu heilsugæslustöðvanna eru ekki aðgengilegar og tímapantanir kalla oft á tíðum á flókna afgreiðslu og tafsama.

Mikil ásókn í þjónustu bráðamóttökudeilda Landspítalans vegna almennra kvilla eru til merkis um að heilsugæslan virkar ekki sem skyldi sem fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustunnar. Miðað við niðurskurð undanfarinna missera hefur sjaldan verið jafn brýnt að nýta heilbrigðisþjónustuna á skilvirkan hátt. Það er mikilvægt að erindum sé sinnt þar sem hentugast og hagkvæmast er að veita viðeigandi þjónustu.

Heilsugæslustöðvar og fagfólk sem þar starfar getur í mörgum tilvikum metið og meðhöndlað heilbrigðisvanda sem fólk leitar með til bráðaþjónustu Landspítala. Til dæmis ef um er að ræða almenna kvilla. Má nefna að algengasta ástæða komu á bráðamóttökudeild barna á Landspítala er hægðatregða. Slíkan vanda ætti að vera unnt að þjónusta á heilsugæslustöð og með því móti má veita foreldrum og barni góða og hagkvæma þjónustu. Ekki er blöðum um það að fletta að í slíkum tilvkum er þjónusta heilsugæslustöðvar einfaldari og ódýrari kostur en bráðaþjónusta á sjúkrahúsi. Fleiri dæmi af svipuðum toga renna stoðum undir mikilvægi þess að almenningur fá betri leiðsögn varðandi hvar er best að leita þjónustu og að sú þjónusta sé  aðgengileg.

Til þess að nýting heilsugæsluþjónustu sé sem best þarf að bæta skipulag þjónustunnar sjálfrar og um leið að kynna framboð á þjónustu fyrir almenningi. Mikilvægt er að starfsfólk og stjórnendur heilsugæslustöðvanna kynni á markvissan hátt hvers almenningur má vænta af þjónustu stöðvanna. Í þessu samhengi er brýnt að nota miðla sem eru aðgengilegir fyrir almenning, t.d. vefmiðla og samfélagsmiðla. Með slíkum umbótum má bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu og draga verulega úr álagi og þar með kostnaði vegna bráðaþjónustu á sjúkrahúsi.

Nýleg umfjöllun um málið er hér.

Ályktun Bjartrar framtíðar um heilsugæslu

BF-Heilsugaesla

 

Rétt meðferð á réttum stað – Betri heilbrigðisþjónusta

Aðgengi að heilsugæslu er ekki eins og best verður á kosið. Eitt af því sem sérfræðingar inn heilbrigðisþjónustunnar og almenningur hafa bent á undanfarin misseri er hversu gríðarlega mikilvægt það er að bæta skipulag heilsugæslunnar til þessa bæta aðgengi að þjónustu sérfræðinga þar. Einstaklingar og fjölskyldur finna sig knúin til að leita til bráðaþjónustu sjúkrahúsa með viðfangsefni sem eiga í raun heima í heilsugæslunni.

Heilsugæslan er grunnþjónusta og ætti að vera fyrsti staðurinn sem fólk leitar til með heilbrigðisvanda. Hins vegar er það svo nú að til dæmis á bráðamóttökudeild barna er algengasta ástæða komu þangað vandamál vegna hægðatregðu. Þessi staðreynd færir heim sanninn um það að heilsugæsluþjónustan þarf að vera bæði aðgengilegri og skilvirkari. Foreldrar barna með vanda af þessum toga ættu að finna til öryggis gagnvart þjónustu heilsugæslunnar og ættu að geta leitað þangað á auðveldan hátt, annað hvort með símtali eða með viðtali á stofu til hjúkrunarfræðings eða læknis. Þjónusta heilsugæslunnar er hagkvæm og þar á að vera veitt örugg og skilvirk þjónusta.

Heilbr-heilsug-sjukrahus