Heilbrigðisþjónustan og Björt framtíð

Björt framtíð lítur á heilbrigðisþjónustuna sem eina heild þar sem stefna, skipulag og stjórnun allra þátta, svo sem sjúkrahúsa og heilsugæslu þarf að samstilla enn betur en nú er. Tryggja þarf örugga þjónustu sjúkrahúsa um leið og þjónusta heilsugæslu er efld þannig að einstaklingum sé gert kleift að sækja þjónustu sem hæfir hverju sinni og hagkvæm nýting þjónustu er tryggð.

Draga þarf úr þörf fólks til að leita til sjúkrahúsa með heilbrigðisvanda sem má leysa innan heilsugæslu. Sama gildir um þjónustu við aldraða og þjónustu við fatlaða. Þar þarf að tryggja þjónustu sem byggir á þörfum notenda, er hagkvæm og eflir sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna, sbr. notendastýrða persónulega þjónustu (NPA). Björt framtíð leggur áherslu á að öllum landsmönnum sé tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu á grundvelli velferðarsamfélags.

Heilsugæslan. Björt framtíð leggur sérstaka áherslu á forvarnir, heilsueflingu og heilsugæslu. Bæta þarf aðgengi að þjónustu heilsugæslu. Endurskoða þarf þjónustu heilsugæslustöðva þannig að upplýsingar um þjónustuna verði skýrari og aðgengilegri en nú er. Endurskoða þarf stefnu, skipulag og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar í heild þannig að nýting fjármuna og mannafla í hverju hluta þjónustunnar sé markviss og hagkvæm.

  • Betri samvinna milli stofnana og faghópa, t.d. milli heilsugæslu og sjúkrahúsa, eflir skilvirkni reksturs, nýtingu fjármuna og bætir árangur.
  • Tölur sýna að þeir sem leita til bráðasjúkrahúsa hafa margir vanda sem leysa mætti t.d. í heilsugæslu. Bæta þarf getu fólks og auka hvata í kerfinu til þess að einstaklingar leiti með vanda sinn á rétta staði innan heilbrigðisþjónustunnar. Aðgangur að heilsugæslu hefur áhrif á bráðaþjónustuna. Með betri nýtingu heilsugæslu má draga úr þörf fólks á dýrum úrræðum. Þetta hefur áhrif til hagræðingar, dregur úr álagi á starfsfólk og bætir gæði þjónustunnar.
  • Skerpa þarf sýn á verkefni heilsgæslunnar. Leita þarf allra leiða til að auka þverfaglegt samstarf ýmissa heilbrigðisstétta til að mæta þörfum fólks fyrir heilsugæslu. Miða þarf samstarfið við hag þeirra sem þjónustuna þiggja. Hér þarf að rýna í gæði stjórnunar, skipulags og stefnu og taka ákvarðanir í ljósi reynslu undanfarin ár.
  • Brýnt er að líta á þjónustu sálfræðinga, sjúkraþjálfara og tannlækna sem hluta af grunnþjónustu og forvörnum og tryggja þarf greiðsluþátt hins opinbera í slíkri þjónustu. Aðgengileg þjónusta þessara heilbrigðisstétta eflir forvarnir og er mikilvægur liður í að mæta vanda fólks áður en hann verður flókinn og kostnaðarsamur. Hlutdeild ríkis í tannlæknaþjónustu barna er fagnaðarefni. Hlutdeild ríkis í kostnaði sálfræðiþjónustu væri mikilvægt framfaraskref.
  • Mikilvægt er að setja fram heildaráætlun um verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar sem og áætlun um fjármál. Byggja þarf áætlanir á haldbærum upplýsingum og þekkingu. 
  • Mikilvægt er að hlúa að starsfólki heilsugæslunnar og leita allra leiða til að gera heilsugæsluna að aðlaðandi vinnustað. Slíkt tryggir nauðsynlega endurnýjun í röðum heilbrigðisstétta og framþróun þekkingar á sviðinu. Skýr stefna, gott skipulag og heilbrigt starfsumhverfi hefur góð áhrif á árangur starfsins, starfsgetu og ánægju starfsfólks.

Þjónusta við aldraða. Efla þarf þjónustu við aldraða þannig að þeim sé gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili með aðstoð sem þarf. Slíkt fyrirkomulag dregur úr þörf að dýrari þjónustu. Skortur á úrræðum fyrir eldri borgara hefur t.d. áhrif á bráðaþjónustuna eins og dæmin sanna varðandi Landspítala og önnur sjúkrahús. Samstillt þjónusta fyrir aldraða eykur hagræði, bætir lífsgæði og minnkar sóun.

  • Tryggja þarf aðgang að hjúkrunarheimilum um leið og heimaþjónusta er efld. Hér á landi eru fleiri hjúkrunarrými fyrir hvern íbúa en almennt tíðkast á Norðurlöndum. Samt sem áður eru margir á biðlista eftir slíkri þjónustu og þiggja þjónustu sem í raun hentar þeim ekki, t.d. þjónustu bráðasjúkrahúsa. Á sama tíma er þjónusta til eldri borgara sem búa heima hjá sér minni hér en almennt gerist í nágrannalöndum.
  • Góð þjónusta heima eflir lífsgæði. Ný rannsókn hér á landi sýnir að stór hópur eldri borgara er háður daglegri umönnun fjölskyldu, oft kvenna í viðkomandi fjölskyldu. Rannsóknin bendir til þess að ófullnægjandi aðstoð í heimahúsum geti síðan leitt til þess að hinn aldraði leiti frekar eftir þjónustu á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
  • Björt framtíð leggur áherslu á að bæta þjónustu aldraða þannig að hún geri þeim kleift að njóta sjálfstæðis og persónulegrar þjónustu eins og kostur er og minnka þannig þörf fyrir dvöl á stofnunum. Aðstoð ættingja er mikilvæg og dýrmæt en getur ekki verið burðarás velferðarþjónustunnar. Miklar kröfur til ættingja geta haft neikvæð áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar, jafnvel truflað atvinnuþátttöku og heilsu þeirra sem í hlut eiga.
  • Tryggja þarf vænlegar og hagkvæmar leiðir til að leysa skort á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Kanna þarf t.d. hvort mögulegt er að nýta betur þær aðstæður sem eru fyrir hendi, t.d. með því að byggja við einhver hjúkrunarheimilanna.
  • Efla þarf samstarf bráðaþjónustu, heilsugæslu, heimahjúkrunar og hjúkrunarheimila og nýta tækni við heilbrigðisþjónustu enn betur hér á landi, t.d. fjarlækningar og fjarhjúkrun sem getur aukið sjálfstæði og sjálfsbjarargetu einstaklinga og fjölskyldna og dregið þar með úr þörf fyrir aðra þjónustu.

Efla þarf bráðaþjónustu á sjúkrahúsum hvað varðar aðstöðu, byggingar og tæki en ekki hvað síst þarf að efla innviði þjónustunnar; aðstæður starfsfólk, samstarf, stjórnun og rekstur. Hér þarf að nýta upplýsingar og bestu þekkingu og bæta stjórnun reksturs, t.d. innkaupa til að draga úr sóun.

  • Við endurskoðun á starfi heilbrigðisstofnana um land allt þarf að vera tryggt að kröfum um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu sé mætt.
  • Björt framtíð styður byggingu nýs Landspítala samkvæmt áætlunum þar um og í þeim áföngum sem gerlegir eru á næstu árum. Endurnýjun og viðhald á eldri byggingum eru mikilvæg verkefni um leið og hugað er að nýjum byggingum. Tryggja þarf öryggi sjúklinga og starfsfólks í núverandi húsnæði spítalans.

Fjölbreytt rekstrarform. Björt framtíð styður fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu eins og verið hefur hér á landi undanfarin ár og áratugi. Nýta þarf ýmsar leiðir til að mæta þörfum landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Þar er opinber þjónusta burðarás en leita þarf leiða til að nýta önnur rekstrarform til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem jafn aðgangur er grundvallaratriði, greiðsluþátttaka jöfn, eftirlit með gæðum þjónustunnar er tryggt og samningar endurskoðaðir í ljósi árangurs og hagkvæmni.

  • Stefna Bjartrar framtíðar er að nýta rekstrarmöguleika sem tryggja gæði þjónustunnar og aðgengi á grunni velferðarsamfélags. Mörg dæmi eru hér á landi um góðan árangur af slíkum rekstri. Hlutverk stjórnvalda er að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og að samningar við rekstraraðila séu í takt við greiðslugetu hins opinbera og þarfir almennings.
  • Marka þarf stefnu um fjármögnun tækjakaupa fyrir heilbrigðisþjónustuna sem tekur mið af framlagi góðgerðasamtaka og sjálfboðaliða (þriðja geirans).
  • Yfirsýn yfir alla þætti reksturs er mikilvæg til að geta markað stefnu sem er mótuð af grundvallarsjónarmiðum og samkomulagi þeirra sem málið varðar.
  • Góðar upplýsingar um heilbrigðis- og velferðarþjónustu eru forsenda þess að samstarf fagaðila sé gott og að einstaklingarnir geti verið sjálfbjarga og geti valið þjónustu sem best hentar hverju sinni.

http://www.bjortframtid.is/aherslur/

BF

One thought on “Heilbrigðisþjónustan og Björt framtíð

  1. Pingback: Stefnuleysi Bjartrar framtíðar | Freyja

Bættu við athugasemd