Björt framtíð leggur áherslu á ábyrga ákvarðanatöku byggða á vandaðri áætlanagerð. Auka þarf a framlag til heilbrigðisþjónustu og um leið þarf að nýta betur það fé sem varið er til þjónustunnar nú þegar. Vísbendingar eru um að nýta megi betur fé sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar.
Með því að gera skýrari samninga um þjónustu sem ríkið kaupir má betur tryggja hagkvæma nýtingu fjár. Auka þarf eftirlit með ákveðnum þáttum þjónustunnar varðandi meðferð fjár og um aðgengi og þörf á þjónustu samanber nýlegar fréttir og orð landlæknis þar um. Björt framtíð leggst eindregið gegn því að heilbrigðisþjónusta sé rekin í gróðaskyni.
Björt framtíð leggur áherslu á að haldið verið áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og að tryggja aðgengi einstaklinga um land allt að þverfaglegri heilsugæsluþjónustu. Styrkja þarf þjónustu við aldraða og tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum fyrir einstaklinga sem það þurfa en jafnframt að bæta heimaþjónustu til að styðja sjálfstætt líf einstaklinga. Bætt aðgengi að heilsugæslu og heimaþjónustu kemur í veg fyrir að einstaklingar þurfi að leita dýrari úrræða.
Sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum landsins þarf að renna í auknum mæli til þjóðarinnar og þar með til að mæta þörf hennar fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Hér er einkum átt við auðlindir sjávar, orku jarðarinnar og náttúruperlur landsins. Bætt skattheimta og eftirlit dregur úr skattaundanskotum sem nema hér á landi verulegum upphæðum sem nýtast munu til uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar.
Með því að efla forvarnir t.d. í tengslum við lífsstílssjúkdóma má draga úr kostnaði heilbrigðisþjónustunnar og úr kostnaði einstaklinga t.d. vegna lyfjanotkunar og langvarandi heilsufarsvanda. Hér er mikilvægt að takast á við vanda tengdan t.d. offitu, sykursýki, streitu og álagi. Með forvörnum stoðkerfisvanda má draga úr líkum á minnkaðri starfsgetu til hagsbóta fyrir einstaklingana og samfélagið allt.
Stærsti kostnaðarliður heilbrigðisstofnana eru laun starfsfólks. Mikivægt er að tryggja fullnægjandi mannafla þjónustunnar, nýta sérþekkingu hverrar starfstéttar á markvissan hátt, draga úr kostnaði vegna yfirvinnu og standa vörðu um heilsu, starfsgetu og starfsánægju allra starfsmanna. Árangursrík mannauðsstjórnun er mikilvægur liður í hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustunnar.
Björt framtíð leggur áherslu á heildræna nálgun og betri samþættingu heilbrigðisþjónustunnar. Þannig má auka skilvirkni og draga úr sóun. Vísbendingar eru um að víða innan heilbrigðisþjónustunnar séu tækifæri til að einfalda skipulag og hagræða þannig að dregið sé úr sóun bæði einstaklinganna sem njóta þjónustunnar og þeirra sem þjónustuna veita.