Category Archives: Heilbrigðisþjónusta

Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar og fjármögnun

Björt framtíð leggur áherslu á ábyrga ákvarðanatöku byggða á vandaðri áætlanagerð.  Auka þarf a framlag til heilbrigðisþjónustu og um leið þarf að nýta betur það fé sem varið er til þjónustunnar nú þegar. Vísbendingar eru um að nýta megi betur fé sem varið er til heilbrigðisþjónustunnar.

Með því að gera skýrari samninga um þjónustu sem ríkið kaupir má betur tryggja hagkvæma nýtingu fjár. Auka þarf eftirlit með ákveðnum þáttum þjónustunnar varðandi meðferð fjár og um aðgengi og þörf á þjónustu samanber nýlegar fréttir og orð landlæknis þar um.  Björt framtíð leggst eindregið gegn því að heilbrigðisþjónusta sé rekin í gróðaskyni.

Björt framtíð leggur áherslu á að haldið verið áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og að tryggja aðgengi einstaklinga um land allt að þverfaglegri heilsugæsluþjónustu. Styrkja þarf þjónustu við aldraða og tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum fyrir einstaklinga sem það þurfa en jafnframt að bæta heimaþjónustu til að styðja sjálfstætt líf einstaklinga.  Bætt aðgengi að heilsugæslu og heimaþjónustu kemur í veg fyrir að einstaklingar þurfi að leita dýrari úrræða.

Sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum landsins þarf að renna í auknum mæli til þjóðarinnar og þar með til að mæta þörf hennar fyrir uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Hér er einkum átt við auðlindir sjávar, orku jarðarinnar og náttúruperlur landsins.  Bætt skattheimta og eftirlit dregur úr skattaundanskotum sem nema hér á landi verulegum upphæðum sem nýtast munu til uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar.

Með því að efla forvarnir t.d. í tengslum við lífsstílssjúkdóma má draga úr kostnaði heilbrigðisþjónustunnar og úr kostnaði einstaklinga t.d. vegna lyfjanotkunar og langvarandi heilsufarsvanda. Hér er mikilvægt að takast á við vanda tengdan t.d. offitu, sykursýki, streitu og álagi. Með forvörnum stoðkerfisvanda má draga úr líkum á minnkaðri starfsgetu til hagsbóta fyrir einstaklingana og samfélagið allt.

Stærsti kostnaðarliður heilbrigðisstofnana eru laun starfsfólks. Mikivægt er að tryggja fullnægjandi mannafla þjónustunnar, nýta sérþekkingu hverrar starfstéttar á markvissan hátt, draga úr kostnaði vegna yfirvinnu og standa vörðu um heilsu, starfsgetu og starfsánægju allra starfsmanna. Árangursrík mannauðsstjórnun er mikilvægur liður í hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Björt framtíð leggur áherslu á heildræna nálgun og betri samþættingu heilbrigðisþjónustunnar. Þannig má auka skilvirkni og draga úr sóun.  Vísbendingar eru um að víða innan heilbrigðisþjónustunnar séu tækifæri til að einfalda skipulag og hagræða þannig að dregið sé úr sóun bæði einstaklinganna sem njóta þjónustunnar og þeirra sem þjónustuna veita.

sg-bf-_profilmynd

Hvernig getum við byggt upp heilbrigðisþjónustuna?

Eitt mikilvægast úrlausnarefni heilbrigðisþjónustunnar er að tryggja aðgengi einstaklinganna að þjónustu við hæfi. Þessi vandi blasir við á öllum stigum þjónustunnar. Í fyrsta lagi má nefna að mjög margir einstaklingar, bæði í þéttbýli og dreifbýli, geta ekki sótt góða heilsugæsluþjónustu. Góð heilsugæsluþjónusta felst m.a. í því að hver og einn sé skráður til þjónustu ákveðins læknis og ákveðins hjúkrunarfræðings og jafnframt að geta sótt þjónustu annarra heilbrigðisstétta, t.d. ljósmæðra, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og næringarfræðinga á viðkomandi heilsugæslustöð.

Í öðru lagi blasir við að fjöldi aldraðra fær ekki notið fullnægjandi heimaþjónustu né þjónustu hjúkrunarheimilis þegar þörf er á. Æ fleiri rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að efla ætti heimaþjónustu vegna þess að hún hefur í för með sér meiri lífsgæði og minni kostnað samanborið við dvöl á stofnunum.

Í þriðja lagi er aðgangur að sérfræðiþjónustu á mörgum sviðum ófullnægjandi og er þar ofarlega á blaði sálræn þjónusta. Þjónustu sálfræðinga, geðlækna og geðhjúkrunarfræðinga þarf að stórefla miðað við hve margir þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Þverfagleg heilsugæsla. Björt framtíð leggur áherslu á að byggja upp heilsugæslu með heildrænni og þverfaglegri nálgun þar sem þekking og reynsla margra heilbrigðisstétta er nýtt og tækni notuð á hagkvæman hátt. Þannig má stórbæta aðgengi að heilsugæslu með hagkvæmum og árangursríkum hætti.

Heimaþjónusta og hjúkrunarrými. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði. Samhliða þarf að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild.

Mannauður og nútímalegt skipulag. Mannauður heilbrigðisþjónustunnar er í forgrunni heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar og mikilvægi þess að stutt sé við heilbrigðisstarfsfólk með góðu starfsumhverfi og árangursríkri stjórnun. Með því að hlúa betur að heilbrigðisstarfsfólki má tryggja að heilbrigðisþjónustan sé eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að sér bæði ungt og reynslumikið heilbrigðisstarfsfólk.

Heildræn hugsun og skapandi nálgun. Heildræn hugsun og áætlanir til framtíðar eru grundvöllur farsællar uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar. Nútímalegt skipulag og árangursrík stjórnun glæðir sköpunarkraft starfsfólks og gerir fagfólki kleift að skapa árangursríkar lausnir og veita góða þjónustu. Gott starfsumhverfi laðar fram krafta og áhuga heilbrigðisstarfsfólks á að njóta þess að helga störf sín mikilvægu verkefni og að byggja þannig upp góða og örugga heilbrigðisþjónustu.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar og skipar annað sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður

Greinin var fyrst birt í Kjarnanum 18. október. 2016

sg-bf-_profilmynd

Björt framtíð heilbrigðisþjónustunnar.

Grein sem birtist í Kjarnanum 13. september 2016.

Björt framtíð heilbrigðisþjónustunnar

Við erum öll sammála um hversu brýnt er að hefjast handa um úrbætur í heilbrigðisþjónustunni.  En hvaða áherslur eru mikilvægastar til að tryggja örugga og aðgengilega heilbrigðisþjónustu hér á landi? Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa undanfarin ár sérstaklega beint sjónum að velferð barna og eldri borgara, bæði hvað varðar þjónustu innan og utan sjúkrahús. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á bætt aðgengi að þjónustu, til dæmis með frumvarpi um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu sem þingkona flokksins lagði fram og felur það í sér veruleg tækifæri til að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst í dreifðum byggðum landsins.

Heildræn hugsun í heilbrigðisþjónustu er grundvöllur langtímaárangurs og í því sambandi leggur Björt framtíð sérstaka áherslu á markvissar aðgerðir til að tryggja nægan mannafla í heilbrigðisþjónustunni. Við blasir alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum og í mörgum sérgreinum lækna blasir einnig við skortur. Þrátt fyrir nýja kjarasamninga þarf að gera enn betur til að laða að nægan fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem sér störf hér á landi sem heillandi kost þar sem starfsumhverfi og aðbúnaður gerir þeim bæði kleift að veita faglega og góða heilbrigðisþjónustu og lifa mannasæmandi og góðu lífi. Þekking sem byggir á áratuga rannsóknum um heilbrigt og aðlaðandi starfsumhverfi gerir okkur kleift að ráðast í úrbætur sem fela í sér langtímalausnir til hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Um leið og ráðist er í markvissar aðgerðir til að efla mannauð heilbrigðisþjónustunnar er mikilvægt að bæta skipulag og stefnu þannig að skjólstæðingarnir njóti þekkingar og færni þverfaglegs hóps starfsfólks, ekki síst innan heilsugæslunnar. Þar er mikilvægt að flétta saman þjónustu lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, sálfræðinga, félagsráðgjafa og fleiri stétta þannig að einstaklingar hafi aðgang að sem allra bestri þjónustu á hagkvæman og skilvirkan hátt. Þverfagleg nálgun og góð teymisvinna getur tryggt að snemma sé gripið inn í vanda og komið í veg fyrir að leita þurfi flókinna og dýrra úrræða.

Það er mikið fagnaðarefni að búið er að samþykkja nýtt frumvarp um greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu og þar með ætti að vera úr sögunni að einstaklingar standi frammi fyrir ofurháum reikningum vegna heilbrigðisþjónustu. Þak á upphæð sem hver einstaklingur greiðir hefur verið lækkað en betur má ef duga skal. Meðal þess sem þarf að vinna að er að þjónusta sálfræðinga falli undir sama hatt og önnur þjónusta sem og tannlæknaþjónusta. Það er algjört forgangsverkefni að tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu með lágmarkskostnaði einstaklinganna.

Heilbrigðisþjónusta hér á landi er að stórum hluta veitt á vettvangi sjálfstæðs reksturs en til þess að tryggja jafnt aðgengi, gæði og hagkvæma nýtingu fjármagns er mjög mikilvægt að bæta lagalega umgjörð og eftirlit. Sömuleiðis þarf að skerpa reglur og leiðbeiningar um samspil og samvinnu opinberrar þjónustu og þjónustu sem veitt er á stofum t.d. varðandi mat á gæðum, eftirfylgni og viðbrögð við frávikum og fylgikvillum.

Um leið og Björt framtíð fagnar nýjum áformum um byggingar öldrunarheimila er mjög miklvægt að stórefla heimaþjónustu til aldraðra. Með einstaklingsmiðaðri heimaþjónustu er stutt við sjálfstæði og lífsgæði aldraðra og sýnt hefur verið fram á að heimaþjónusta er hagkvæmt úrræði og getur í mörgum tilvikum hentað mun betur en vistun á stofnun.

Björt framtíð leggur áherslu á langtímahugsun í heilbrigðisþjónustu. Með því að byggja á reynslu og nýta nýja þekkingu til að endurskoða skipulag og starfsumhverfi getum við laðað að hæfileikaríkt heilbrigðistarfsfólk sem getur veitt örugga og góða þjónustu og staðið vörð um lífsgæði skjólstæðinganna og eflt um leið sín eigin lífsgæði, innan og utan vinnunnar.

thessi-aetlar-ad-breyta-stjornmalunum

SG-Anna-Gyda

Starfsumhverfi og líðan hjúkrunarfræðinga á Landspítala 2015

Nú í nóvember 2015 verður gerð könnun á starfsumhverfi og líðan hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Könnunin er send í tölvupósti (Landspítalatölvupóstur) til allra starfandi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítala.

Um er að ræða endurtekningu á könnun sem var gerð haustið 2003 og birt í doktorsritgerð í nóvember árið 2005.  Rannsóknin nú verður eins og þá spurningalistakönnun með þátttöku allra hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítala og byggt er á sama mælitæki sem kennt er við ,,Magnet hospital”. 

Niðurstöðurnar sem voru birtar árið 2005 voru að mörgu leyti hagstæðar fyrir Ísland samanborðið við önnur lönd en þó komu þar fram ýmis viðvörunarmerki um neikvæða þróun í starfsmannamálum á Landspítala á þeim árum.

Það verður mjög áhugavert að sjá niðurstöður könnunarinnar nú og án efa geta þær verið hjúkrunarfræðingum og stjórnendum Landspítalans gott veganesti fyrir áframhaldandi úrbætur á starfsumhverfi spítalans.

Við hvetjum hjúkrunarfræðinga og ljósmæður á Landspítala að nýta þetta tækifæri og taka þátt í könnuninni og auka þar með líkurnar á að varpa megi skýru ljósi á stöðu mála varðandi starfsumhverfi og líðan starfsfólks á Landspítala.

Jana Katrín Knútsdóttir, hjúkrunarfræðingur vinnur rannsóknina til meistaraprófs og ábyrgðarmenn eru Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og dósent við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst og Kári Kristinsson, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Konnun Landspitala 2015

Starfsumhverfi Landspítala nú og í nóvember 2003

Nú er brýnt sem aldrei fyrr að vinna að úrbótum á starfsumhverfi Landspítala. Nýjar rannsóknir og mat starfsfólks benda á að bæta þarf aðstæður á sjúkrahúsinu sjálfu, skipulag starfsins og samskipti. Þessar áherslur eru ekki nýjar og fróðlegt  að rifja upp skýrslu sem var skrifuð í nóvember árið 2003 sem byggð var á þremur könnunum um starfsumhverfi sem gerðar höfðu verið um viðhorf starfsfólks til aðstæðna og skipulags. Tillögur voru settar fram í ljósi niðurstaðna þessara kannana með áherslu á öryggi og gæði þjónustunnar, einkum miðað við starfsaðstæður, starfsgetu og líðan starfsfólks Landspítala

Hér fyrir neðan eru tillögurnar sem settar voru fram um úrbætur á Landspítala í nóvember árið 2003  (skýrslan í heild fylgir).

Ef til vill mætti nýta sömu tillögur að úrbótm nú í nóvember árið 2013?

,,Samantekt skýrslna um aðstöðu og viðhorf starfsmanna á LSH og tillögur til úrbóta. Nóvember 2003″, bls. 3 – 4.

II. Tillögur*

A.        Viðunandi aðbúnaður – Umbætur, öryggi og eðlileg viðmið

  1. Vinna þarf markvisst að því að laða að starfsmenn til spítalans, einkum til hjúkrunarstarfa og almennra starfa.
  2. Hraða þarf umbótum á aðbúnaði starfsmanna skv. lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (nr. 46/1980) og sérstökum viðmiðum um heilbrigðisstofnanir.  Koma má á vinnuhópi starfsmanna, öryggisnefndar, fulltrúa skrifstofu tækni og eigna og etv. fulltrúa frá VER til að vinna að þessum umbótum.
  3. Bæta skrifstofuaðstöðu og aðstæður á deildum (s.s. kaffistofa, stærð vaktar, aðstaða f. nemendur, hreinlæti og öryggi).  Fullnægjandi aðstæður þurfa að vera fyrir hendi til viðtala við sjúklinga og aðstandendur og til samráðsfunda.
  4. Bæta þarf sérstaklega aðstöðu til hvíldar og hreinlætis fyrir þá sem þurfa að sofa á vinnustað.
  5. Taka þarf upp fyrri umræður við stjórnendur eldhúss um aðgengi að mat að nóttu til.
  6. Gangainnlagnir eiga ekki að koma fyrir nema í undantekningatilvikum því illmögulegt er að veita sjúklingum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu með þeim hætti.

B.        Persónuleg samskipti – Sýnilegir stjórnendur, sviðsstjórar og yfirstjórn

  1. Hvetja þarf til aukinna persónulegra samskipta við miðlun upplýsinga.
  2. Upplýsingamiðlun þarf að vera hnitmiðuð með tilliti til tímasetninga og viðtakenda.
  3. Beinn póstur til starfsmanna getur oft skilað betri árangri en tilvísanir í heimasíðu.
  4. Efla þarf opna umræðu og skapa tengsl á milli þeirra sem ræða áætlanir og ákvarðanir og þeirra sem málið varðar á vettvangi.
  5. Leita þarf leiða til að gera sviðsstjórum kleift að vera sýnilegir og aðgengilegir starfsmönnum og til að miðla upplýsingum með persónulegum hætti.
  6. Sviðsstjóra þarf að hvetja og styrkja til að virkja betur þann stjórnendahóp sem þeir hafa.  Líta má til tillagna deildar gæða og innri endurskoðunar um breytingar á verkefnum gæðastjóra sviða og sviðsstjórnar í þessu sambandi.
  7. Yfirstjórn og skýr stefna hennar þarf að vera sýnileg starfsmönnum.
  8. Einstökum starfsmönnum, hópum, deildum og sviðum verði veittar upplýsingar um vel unnin störf og einnig þegar miður gengur og úrbóta er þörf.
  9. Hvetja starfsmenn frekar en letja til að tjá sig um fagleg málefni og alls þess sem stuðlað getur að bættri þjónustu spítalans.

C.        Starfslýsingar, afmörkun og ábyrgð – Þátttaka starfsmanna í ákvarðanatöku

  1. Yfirstjórn og stjórnendur hafi skýra stefnu hvað varðar þá þjónustu sem spítalinn og deildir hans bjóða (s.s. bráðamótttaka, göngudeildarþjónusta, kennsla).
  2. Leggja þarf áherslu á notkun starfslýsinga (afmörkun, ábyrgð) og verkferla.  Slíkt styrkir samstarf stétta og sjálfræði þeirra, eflir traust og bætir gæði þjónustu.
  3. Virkja þarf starfsmenn til þátttöku í stefnumótun og ákvörðunum á öllum stigum, slíkt myndi í mörgum tilvikum bæta ákvarðanatöku og með því er enn frekar litið á starfsmenn sem liðsmenn spítalans.
  4. Nýta þarf betur þekkingu og sköpunarmátt starfsmanna með þátttöku í nefndum og ráðum og litið á slíkt framlag sem hluta af vinnu þeirra við spítalann.
  5. Efla þarf formlega þátttöku starfsmannaráðs, læknaráðs og hjúkrunarráðs við stefnumótun og ákvarðanatöku.
  6. Vinnulag nefnda og ráða þarf að vera vel skipulagt og tryggt að niðurstöður af störfum þeirra séu öðrum sýnilegar og nýtanlegar.

Samantekt um kannanir á starfsumhverfi Landspítala í nóvember 2003 (pdf)

Vatn-xxxxxxx

 

Heilbrigðisþjónustan og Björt framtíð

Björt framtíð lítur á heilbrigðisþjónustuna sem eina heild þar sem stefna, skipulag og stjórnun allra þátta, svo sem sjúkrahúsa og heilsugæslu þarf að samstilla enn betur en nú er. Tryggja þarf örugga þjónustu sjúkrahúsa um leið og þjónusta heilsugæslu er efld þannig að einstaklingum sé gert kleift að sækja þjónustu sem hæfir hverju sinni og hagkvæm nýting þjónustu er tryggð.

Draga þarf úr þörf fólks til að leita til sjúkrahúsa með heilbrigðisvanda sem má leysa innan heilsugæslu. Sama gildir um þjónustu við aldraða og þjónustu við fatlaða. Þar þarf að tryggja þjónustu sem byggir á þörfum notenda, er hagkvæm og eflir sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna, sbr. notendastýrða persónulega þjónustu (NPA). Björt framtíð leggur áherslu á að öllum landsmönnum sé tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu á grundvelli velferðarsamfélags.

Heilsugæslan. Björt framtíð leggur sérstaka áherslu á forvarnir, heilsueflingu og heilsugæslu. Bæta þarf aðgengi að þjónustu heilsugæslu. Endurskoða þarf þjónustu heilsugæslustöðva þannig að upplýsingar um þjónustuna verði skýrari og aðgengilegri en nú er. Endurskoða þarf stefnu, skipulag og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar í heild þannig að nýting fjármuna og mannafla í hverju hluta þjónustunnar sé markviss og hagkvæm.

  • Betri samvinna milli stofnana og faghópa, t.d. milli heilsugæslu og sjúkrahúsa, eflir skilvirkni reksturs, nýtingu fjármuna og bætir árangur.
  • Tölur sýna að þeir sem leita til bráðasjúkrahúsa hafa margir vanda sem leysa mætti t.d. í heilsugæslu. Bæta þarf getu fólks og auka hvata í kerfinu til þess að einstaklingar leiti með vanda sinn á rétta staði innan heilbrigðisþjónustunnar. Aðgangur að heilsugæslu hefur áhrif á bráðaþjónustuna. Með betri nýtingu heilsugæslu má draga úr þörf fólks á dýrum úrræðum. Þetta hefur áhrif til hagræðingar, dregur úr álagi á starfsfólk og bætir gæði þjónustunnar.
  • Skerpa þarf sýn á verkefni heilsgæslunnar. Leita þarf allra leiða til að auka þverfaglegt samstarf ýmissa heilbrigðisstétta til að mæta þörfum fólks fyrir heilsugæslu. Miða þarf samstarfið við hag þeirra sem þjónustuna þiggja. Hér þarf að rýna í gæði stjórnunar, skipulags og stefnu og taka ákvarðanir í ljósi reynslu undanfarin ár.
  • Brýnt er að líta á þjónustu sálfræðinga, sjúkraþjálfara og tannlækna sem hluta af grunnþjónustu og forvörnum og tryggja þarf greiðsluþátt hins opinbera í slíkri þjónustu. Aðgengileg þjónusta þessara heilbrigðisstétta eflir forvarnir og er mikilvægur liður í að mæta vanda fólks áður en hann verður flókinn og kostnaðarsamur. Hlutdeild ríkis í tannlæknaþjónustu barna er fagnaðarefni. Hlutdeild ríkis í kostnaði sálfræðiþjónustu væri mikilvægt framfaraskref.
  • Mikilvægt er að setja fram heildaráætlun um verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar sem og áætlun um fjármál. Byggja þarf áætlanir á haldbærum upplýsingum og þekkingu.
  • Mikilvægt er að hlúa að starsfólki heilsugæslunnar og leita allra leiða til að gera heilsugæsluna að aðlaðandi vinnustað. Slíkt tryggir nauðsynlega endurnýjun í röðum heilbrigðisstétta og framþróun þekkingar á sviðinu. Skýr stefna, gott skipulag og heilbrigt starfsumhverfi hefur góð áhrif á árangur starfsins, starfsgetu og ánægju starfsfólks.

Þjónusta við aldraða. Efla þarf þjónustu við aldraða þannig að þeim sé gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili með aðstoð sem þarf. Slíkt fyrirkomulag dregur úr þörf að dýrari þjónustu. Skortur á úrræðum fyrir eldri borgara hefur t.d. áhrif á bráðaþjónustuna eins og dæmin sanna varðandi Landspítala og önnur sjúkrahús. Samstillt þjónusta fyrir aldraða eykur hagræði, bætir lífsgæði og minnkar sóun.

  • Tryggja þarf aðgang að hjúkrunarheimilum um leið og heimaþjónusta er efld. Hér á landi eru fleiri hjúkrunarrými fyrir hvern íbúa en almennt tíðkast á Norðurlöndum. Samt sem áður eru margir á biðlista eftir slíkri þjónustu og þiggja þjónustu sem í raun hentar þeim ekki, t.d. þjónustu bráðasjúkrahúsa. Á sama tíma er þjónusta til eldri borgara sem búa heima hjá sér minni hér en almennt gerist í nágrannalöndum.
  • Góð þjónusta heima eflir lífsgæði. Ný rannsókn hér á landi sýnir að stór hópur eldri borgara er háður daglegri umönnun fjölskyldu, oft kvenna í viðkomandi fjölskyldu. Rannsóknin bendir til þess að ófullnægjandi aðstoð í heimahúsum geti síðan leitt til þess að hinn aldraði leiti frekar eftir þjónustu á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
  • Björt framtíð leggur áherslu á að bæta þjónustu aldraða þannig að hún geri þeim kleift að njóta sjálfstæðis og persónulegrar þjónustu eins og kostur er og minnka þannig þörf fyrir dvöl á stofnunum. Aðstoð ættingja er mikilvæg og dýrmæt en getur ekki verið burðarás velferðarþjónustunnar. Miklar kröfur til ættingja geta haft neikvæð áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar, jafnvel truflað atvinnuþátttöku og heilsu þeirra sem í hlut eiga.
  • Tryggja þarf vænlegar og hagkvæmar leiðir til að leysa skort á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Kanna þarf t.d. hvort mögulegt er að nýta betur þær aðstæður sem eru fyrir hendi, t.d. með því að byggja við einhver hjúkrunarheimilanna.
  • Efla þarf samstarf bráðaþjónustu, heilsugæslu, heimahjúkrunar og hjúkrunarheimila og nýta tækni við heilbrigðisþjónustu enn betur hér á landi, t.d. fjarlækningar og fjarhjúkrun sem getur aukið sjálfstæði og sjálfsbjarargetu einstaklinga og fjölskyldna og dregið þar með úr þörf fyrir aðra þjónustu.

Efla þarf bráðaþjónustu á sjúkrahúsum hvað varðar aðstöðu, byggingar og tæki en ekki hvað síst þarf að efla innviði þjónustunnar; aðstæður starfsfólk, samstarf, stjórnun og rekstur. Hér þarf að nýta upplýsingar og bestu þekkingu og bæta stjórnun reksturs, t.d. innkaupa til að draga úr sóun.

  • Við endurskoðun á starfi heilbrigðisstofnana um land allt þarf að vera tryggt að kröfum um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu sé mætt.
  • Björt framtíð styður byggingu nýs Landspítala samkvæmt áætlunum þar um og í þeim áföngum sem gerlegir eru á næstu árum. Endurnýjun og viðhald á eldri byggingum eru mikilvæg verkefni um leið og hugað er að nýjum byggingum. Tryggja þarf öryggi sjúklinga og starfsfólks í núverandi húsnæði spítalans.

Fjölbreytt rekstrarform. Björt framtíð styður fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu eins og verið hefur hér á landi undanfarin ár og áratugi. Nýta þarf ýmsar leiðir til að mæta þörfum landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Þar er opinber þjónusta burðarás en leita þarf leiða til að nýta önnur rekstrarform til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem jafn aðgangur er grundvallaratriði, greiðsluþátttaka jöfn, eftirlit með gæðum þjónustunnar er tryggt og samningar endurskoðaðir í ljósi árangurs og hagkvæmni.

  • Stefna Bjartrar framtíðar er að nýta rekstrarmöguleika sem tryggja gæði þjónustunnar og aðgengi á grunni velferðarsamfélags. Mörg dæmi eru hér á landi um góðan árangur af slíkum rekstri. Hlutverk stjórnvalda er að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og að samningar við rekstraraðila séu í takt við greiðslugetu hins opinbera og þarfir almennings.
  • Marka þarf stefnu um fjármögnun tækjakaupa fyrir heilbrigðisþjónustuna sem tekur mið af framlagi góðgerðasamtaka og sjálfboðaliða (þriðja geirans).
  • Yfirsýn yfir alla þætti reksturs er mikilvæg til að geta markað stefnu sem er mótuð af grundvallarsjónarmiðum og samkomulagi þeirra sem málið varðar.
  • Góðar upplýsingar um heilbrigðis- og velferðarþjónustu eru forsenda þess að samstarf fagaðila sé gott og að einstaklingarnir geti verið sjálfbjarga og geti valið þjónustu sem best hentar hverju sinni.

http://www.bjortframtid.is/aherslur/

BF

 

 

Heilbrigðisþjónustan og Björt framtíð

Björt framtíð lítur á heilbrigðisþjónustuna sem eina heild þar sem stefna, skipulag og stjórnun allra þátta, svo sem sjúkrahúsa og heilsugæslu þarf að samstilla enn betur en nú er. Tryggja þarf örugga þjónustu sjúkrahúsa um leið og þjónusta heilsugæslu er efld þannig að einstaklingum sé gert kleift að sækja þjónustu sem hæfir hverju sinni og hagkvæm nýting þjónustu er tryggð.

Draga þarf úr þörf fólks til að leita til sjúkrahúsa með heilbrigðisvanda sem má leysa innan heilsugæslu. Sama gildir um þjónustu við aldraða og þjónustu við fatlaða. Þar þarf að tryggja þjónustu sem byggir á þörfum notenda, er hagkvæm og eflir sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna, sbr. notendastýrða persónulega þjónustu (NPA). Björt framtíð leggur áherslu á að öllum landsmönnum sé tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu á grundvelli velferðarsamfélags.

Heilsugæslan. Björt framtíð leggur sérstaka áherslu á forvarnir, heilsueflingu og heilsugæslu. Bæta þarf aðgengi að þjónustu heilsugæslu. Endurskoða þarf þjónustu heilsugæslustöðva þannig að upplýsingar um þjónustuna verði skýrari og aðgengilegri en nú er. Endurskoða þarf stefnu, skipulag og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar í heild þannig að nýting fjármuna og mannafla í hverju hluta þjónustunnar sé markviss og hagkvæm.

  • Betri samvinna milli stofnana og faghópa, t.d. milli heilsugæslu og sjúkrahúsa, eflir skilvirkni reksturs, nýtingu fjármuna og bætir árangur.
  • Tölur sýna að þeir sem leita til bráðasjúkrahúsa hafa margir vanda sem leysa mætti t.d. í heilsugæslu. Bæta þarf getu fólks og auka hvata í kerfinu til þess að einstaklingar leiti með vanda sinn á rétta staði innan heilbrigðisþjónustunnar. Aðgangur að heilsugæslu hefur áhrif á bráðaþjónustuna. Með betri nýtingu heilsugæslu má draga úr þörf fólks á dýrum úrræðum. Þetta hefur áhrif til hagræðingar, dregur úr álagi á starfsfólk og bætir gæði þjónustunnar.
  • Skerpa þarf sýn á verkefni heilsgæslunnar. Leita þarf allra leiða til að auka þverfaglegt samstarf ýmissa heilbrigðisstétta til að mæta þörfum fólks fyrir heilsugæslu. Miða þarf samstarfið við hag þeirra sem þjónustuna þiggja. Hér þarf að rýna í gæði stjórnunar, skipulags og stefnu og taka ákvarðanir í ljósi reynslu undanfarin ár.
  • Brýnt er að líta á þjónustu sálfræðinga, sjúkraþjálfara og tannlækna sem hluta af grunnþjónustu og forvörnum og tryggja þarf greiðsluþátt hins opinbera í slíkri þjónustu. Aðgengileg þjónusta þessara heilbrigðisstétta eflir forvarnir og er mikilvægur liður í að mæta vanda fólks áður en hann verður flókinn og kostnaðarsamur. Hlutdeild ríkis í tannlæknaþjónustu barna er fagnaðarefni. Hlutdeild ríkis í kostnaði sálfræðiþjónustu væri mikilvægt framfaraskref.
  • Mikilvægt er að setja fram heildaráætlun um verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar sem og áætlun um fjármál. Byggja þarf áætlanir á haldbærum upplýsingum og þekkingu. 
  • Mikilvægt er að hlúa að starsfólki heilsugæslunnar og leita allra leiða til að gera heilsugæsluna að aðlaðandi vinnustað. Slíkt tryggir nauðsynlega endurnýjun í röðum heilbrigðisstétta og framþróun þekkingar á sviðinu. Skýr stefna, gott skipulag og heilbrigt starfsumhverfi hefur góð áhrif á árangur starfsins, starfsgetu og ánægju starfsfólks.

Þjónusta við aldraða. Efla þarf þjónustu við aldraða þannig að þeim sé gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili með aðstoð sem þarf. Slíkt fyrirkomulag dregur úr þörf að dýrari þjónustu. Skortur á úrræðum fyrir eldri borgara hefur t.d. áhrif á bráðaþjónustuna eins og dæmin sanna varðandi Landspítala og önnur sjúkrahús. Samstillt þjónusta fyrir aldraða eykur hagræði, bætir lífsgæði og minnkar sóun.

  • Tryggja þarf aðgang að hjúkrunarheimilum um leið og heimaþjónusta er efld. Hér á landi eru fleiri hjúkrunarrými fyrir hvern íbúa en almennt tíðkast á Norðurlöndum. Samt sem áður eru margir á biðlista eftir slíkri þjónustu og þiggja þjónustu sem í raun hentar þeim ekki, t.d. þjónustu bráðasjúkrahúsa. Á sama tíma er þjónusta til eldri borgara sem búa heima hjá sér minni hér en almennt gerist í nágrannalöndum.
  • Góð þjónusta heima eflir lífsgæði. Ný rannsókn hér á landi sýnir að stór hópur eldri borgara er háður daglegri umönnun fjölskyldu, oft kvenna í viðkomandi fjölskyldu. Rannsóknin bendir til þess að ófullnægjandi aðstoð í heimahúsum geti síðan leitt til þess að hinn aldraði leiti frekar eftir þjónustu á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
  • Björt framtíð leggur áherslu á að bæta þjónustu aldraða þannig að hún geri þeim kleift að njóta sjálfstæðis og persónulegrar þjónustu eins og kostur er og minnka þannig þörf fyrir dvöl á stofnunum. Aðstoð ættingja er mikilvæg og dýrmæt en getur ekki verið burðarás velferðarþjónustunnar. Miklar kröfur til ættingja geta haft neikvæð áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar, jafnvel truflað atvinnuþátttöku og heilsu þeirra sem í hlut eiga.
  • Tryggja þarf vænlegar og hagkvæmar leiðir til að leysa skort á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Kanna þarf t.d. hvort mögulegt er að nýta betur þær aðstæður sem eru fyrir hendi, t.d. með því að byggja við einhver hjúkrunarheimilanna.
  • Efla þarf samstarf bráðaþjónustu, heilsugæslu, heimahjúkrunar og hjúkrunarheimila og nýta tækni við heilbrigðisþjónustu enn betur hér á landi, t.d. fjarlækningar og fjarhjúkrun sem getur aukið sjálfstæði og sjálfsbjarargetu einstaklinga og fjölskyldna og dregið þar með úr þörf fyrir aðra þjónustu.

Efla þarf bráðaþjónustu á sjúkrahúsum hvað varðar aðstöðu, byggingar og tæki en ekki hvað síst þarf að efla innviði þjónustunnar; aðstæður starfsfólk, samstarf, stjórnun og rekstur. Hér þarf að nýta upplýsingar og bestu þekkingu og bæta stjórnun reksturs, t.d. innkaupa til að draga úr sóun.

  • Við endurskoðun á starfi heilbrigðisstofnana um land allt þarf að vera tryggt að kröfum um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu sé mætt.
  • Björt framtíð styður byggingu nýs Landspítala samkvæmt áætlunum þar um og í þeim áföngum sem gerlegir eru á næstu árum. Endurnýjun og viðhald á eldri byggingum eru mikilvæg verkefni um leið og hugað er að nýjum byggingum. Tryggja þarf öryggi sjúklinga og starfsfólks í núverandi húsnæði spítalans.

Fjölbreytt rekstrarform. Björt framtíð styður fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu eins og verið hefur hér á landi undanfarin ár og áratugi. Nýta þarf ýmsar leiðir til að mæta þörfum landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Þar er opinber þjónusta burðarás en leita þarf leiða til að nýta önnur rekstrarform til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem jafn aðgangur er grundvallaratriði, greiðsluþátttaka jöfn, eftirlit með gæðum þjónustunnar er tryggt og samningar endurskoðaðir í ljósi árangurs og hagkvæmni.

  • Stefna Bjartrar framtíðar er að nýta rekstrarmöguleika sem tryggja gæði þjónustunnar og aðgengi á grunni velferðarsamfélags. Mörg dæmi eru hér á landi um góðan árangur af slíkum rekstri. Hlutverk stjórnvalda er að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og að samningar við rekstraraðila séu í takt við greiðslugetu hins opinbera og þarfir almennings.
  • Marka þarf stefnu um fjármögnun tækjakaupa fyrir heilbrigðisþjónustuna sem tekur mið af framlagi góðgerðasamtaka og sjálfboðaliða (þriðja geirans).
  • Yfirsýn yfir alla þætti reksturs er mikilvæg til að geta markað stefnu sem er mótuð af grundvallarsjónarmiðum og samkomulagi þeirra sem málið varðar.
  • Góðar upplýsingar um heilbrigðis- og velferðarþjónustu eru forsenda þess að samstarf fagaðila sé gott og að einstaklingarnir geti verið sjálfbjarga og geti valið þjónustu sem best hentar hverju sinni.

http://www.bjortframtid.is/aherslur/

BF