Category Archives: Til góðra verka

Fagmennska og vönduð vinnubrögð

Jón Kalman Stefánsson skrifar sterka ádeilu á stjórnmálin hér á landi í grein sinni þann 6. apríl 2013. Hann bendir á hversu takmörkuð áhrif Rannsóknarskýrsla Alþingis hefur haft, einkum miðað við skýr skilaboð um nauðsyn þess að efla fagmennsku og að ákvarðanir séu teknar með fræðilegum röksemdum. Kannski er hér bent á mikilvægasta verkefni okkar hér á landi, að vera fagleg, vanda okkur og nota þekkingu. Þetta hljómar einfalt. En hvað er átt við með fagmennsku?

Ein af grunnstoðum fagmennsku er vitundin um gildi og tilgang verka okkur. Fagmennska fellst í því að hafa tengsl við tilganginn, grundvallarreglur og hugsjón starfa okkar. Fagmennska er ábyrgð allra en mikilvægasta hlutverkið er í höndum leiðtogans.

Góður leiðtogi minnir á tilgang og hugsjón hvers verkefnis og fellir slíkt tal inn í daglegar samræður og gengur sjálfur á undan með góðu fordæmi. Þannig verður myndin af hugsjóninni skýr og speglast í daglegum störfum. Góður leiðtogi í heilbrigðisþjónustu minnir starfsfókið á að allt er gert til þess að skjólstæðingum farnist vel. Góður leiðtogi í verslun minnir á að það er viðskiptavinurinn sem á að njóta góðs af öllu starfi verslunarinnar. Góður leiðtogi í stjórnmálum minnir á og er fyrirmynd þess að stjórnmál snúast um hagsmuni þjóðarinnar og hagsmuni landsins.

Hvert einasta verk góðs leiðtoga endurspeglar fagmennsku, einlægan áhuga á hag annarra og ábyrgð gagnvart hagsmunum heildarinnar. Leiðtogi sem er ábyrgur og faglegur byggir ákvarðanir sínar á þekkingu og siðferðilegu gildismati. Fjölmörg dæmi eru um afburðaárangur slíkra leiðtoga. Stundum eru þeir nefndir hinir hljóðlátu leiðtogar sem leggja meiri áherslu á að hlusta en að tala og njóta þess best að sjá aðra blómstra.

Björt framtíð er stjórnmálaflokkur sem berst fyrir vönduðum vinnubrögðum, fagmennsku og ábyrgð í stjórnmálum. Björt framtíð lítur svo á að fagmennska og fræðilegar röksemdir séu forsendur ábyrgra og árangursríkra ákvarðana.

BF

 

Getum við vandað okkur betur og náð betri árangri?

Það er gömul saga og ný að með frelsi getur orðið til eitthvað nýtt. Frelsi og sköpun haldast í hendur. Þegar við erum frjáls getum við verið sjálfráð, getum tekið ákvarðanir, stjórnað eigin gerðum. Frelsi og sjálfræði eru forsendur þess að geta notið eigin þekkingar og hæfileika, – skapað nýtt.

Starfsánægja er til dæmis tengd frelsi og sjálfræði. Stjórn á eigin verkefnum tengist vellíðan í vinnu. Sá starfsmaður sem býr við mikið álag en getur jafnframt haft einhverja stjórn á verkefnum sínum er líklegri til að líða betur í vinnunni en sá sem býr við sama álag en getur ekki haft stjórn á eigin verkefnum. Frelsi í vinnu fylgir um leið ábyrgð, til dæmis ábyrgð á að fylgja grundvallarreglum vinnustaðarins, siðareglum, reglum um öryggi og fleira.

Sama gildir um almenna vellíðan og lífsgæði. Einstaklingur sem er frjáls og sjálfráður er líklegri til að líða vel. Þetta er grunnstef í heilsueflingu og forvörnum. Og frelsinu hér fylgir líka ábyrgð. Markmið í lýðheilsustarfi er að efla frelsi og sjálfsbjargargetu einstaklinganna og þar með ábyrgð hvers og eins á eigin viðhorfum og ákvörðunum.

Sömu lögmál gilda um fyrirtæki og rekstur. Skipulagsheild sem er frjáls og byggir starf sitt á eigin forsendum er líklegri til að ná árangri sem sú sem er háð skilyrðum annarra. Hér gildir líka lögmálið um frelsi og ábyrgð, ábyrgð á að fylgja lögum og reglum sem samfélagið setur.

Hlutverk samfélagsins er að standa vörð um frelsi og sjálfræði einstaklinga, hópa og skipulagsheilda. Á þessum grunni verður til fjölbreytileiki þar sem nýjum hugmyndum er fagnað, ólík sjónarmið eru dýrmæt og þekking og þarfir hvers og eins skipta máli. Þetta eru einkenni fagmennsku og vitundar um siðgæði. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er ályktað svo að þessu sé ábótavant hér á landi.

Í ályktun Bjartar framtíðar eru fjölbreytilleiki og frelsi grunnstefin. Fjölbreytileiki mótar hugmyndir flokksins um velferðarmál, menntamál, viðskipti og stjórnsýslu (bjortframtid.is).

Aukið frelsi þarf ekki að kalla á ný útgjöld. Aukin ábyrgðartilfinning þarf ekki að kosta mikið. Meiri fagmennska þarf heldur ekki að kosta mikið. Frelsi, ábyrgð og fagmennska kalla á viðhorf og ákvarðanir. Við eigum ýmislegt upp í erminni í þessum efnum. Við getum hæglega náð í meira frelsi, ábyrgð og fagmennsku til að skapa hér betri líðan, betri vinnustaði, betri stjórnun, betri stjórnsýslu og betri stjórnmál. – Betri og bjartari framtíð.

Fjolbreytileiki-Stjornkerfi

 

Hvatning í starfi – Ytri og innri hvatar

Alla daga reynum við að hvetja okkur sjálf og hvert annað til góðra verka. Aðferðirnar sem við notum byggja á þörfum sem búa innra með okkur. Til dæmis hvetjum við börn okkar til að vera dugleg og sjálfstæð því börn hafa þörf fyrir að finna að takast á við eitthvað nýtt, þroskast og vaxa. Börn hafa líka þörf fyrir að vera viðurkennd. Sama gildir um fullorðna. Maslow sýndi þetta með þarfapírmýda sínum þar sem grunnþarfirnar eru matur og skjól og efst á eru svo þarfir um að njóta sín sem manneskja, vaxa og þroskast.

Sem starfsmenn fáum við hvatningu frá samstarfsfólki og yfirmönnum og sú hvatning byggir líka á þörfum okkar, þeim sömu og Maslow benti á. Fyrir meira en fimmtíu árum setti Herzberg fram mjög áhugaverða kenningu um hvatningu í starfi þar sem hann bendir á tvo flokka hvata; innri hvata (intrinsic motivators) og ytri hvata (extrinsic motivators). Sérhver starfsmaður hefur þörf fyrir bæði innri og ytri hvata og þar með líka þörf fyrir innri og ytri umbun.

Ytri hvatar eru til dæmis laun og ýmis hlunnindi t.d. kort í ræktina, bílahlunnindi, afslættir, sérstök frí, bónusar og fleira í þessum dúr. Hér beinist hvatningin að ytri þáttum starfsins. Herzberg útskýrði vel og vandlega að ytri hvatar og ytri umbun væri nauðsynleg en hins vegar gæti ytri umbun aldrei verið nægjanleg. Rannsóknir Herzberg sýndu að þrátt fyrir að stjórnendur leggðu ofuráherslu á ytri þætti væri ekki mögulegt að tryggja ánægju starfsfólks bara með þeim aðferðum. Annað þyrfti að koma til og þá hvatningu kallaði Herzberg innri hvatningu.

Innri hvatar snúa að starfinu sjálfu, samskipti sem starfið felur í sér og tækifæri starfsmannsins til að vaxa og dafna í starfi. Innri starfshvöt felur í sér tækifæri til að njóta þess sem starfið sjálft felur í sér og um þann tilgang sem starfsmaður sér með starfi sínu. Innri umbun er upplifun starfsmanns af starfi sínu og getur til dæmis falist í viðmóti skjólstæðinga eða viðskiptavina, þakklæti, brosi eða árangri sem viðskiptavinur nær vegna þjónustu starfsmannsins. Innri umbun felst líka í þroska og lærdómi sem starfsmaður nýtur vegna starfa sinna og verkefna. Innri starfshvöt er nátengd hugmyndum um tilgang starfa, gildi hugsjónar og samsfélagslegarar ábyrgðar.

Innri starfshvöt nærist á frelsi og sjálfræði í starfi sem eru forsendur sköpunar.

Ályktun Bjartrar framtíðar um íslenska stjórnkerfið.

BF-Frjals- Skapandi