Björt framtíð heilbrigðisþjónustunnar.

Grein sem birtist í Kjarnanum 13. september 2016.

Björt framtíð heilbrigðisþjónustunnar

Við erum öll sammála um hversu brýnt er að hefjast handa um úrbætur í heilbrigðisþjónustunni.  En hvaða áherslur eru mikilvægastar til að tryggja örugga og aðgengilega heilbrigðisþjónustu hér á landi? Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa undanfarin ár sérstaklega beint sjónum að velferð barna og eldri borgara, bæði hvað varðar þjónustu innan og utan sjúkrahús. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á bætt aðgengi að þjónustu, til dæmis með frumvarpi um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu sem þingkona flokksins lagði fram og felur það í sér veruleg tækifæri til að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst í dreifðum byggðum landsins.

Heildræn hugsun í heilbrigðisþjónustu er grundvöllur langtímaárangurs og í því sambandi leggur Björt framtíð sérstaka áherslu á markvissar aðgerðir til að tryggja nægan mannafla í heilbrigðisþjónustunni. Við blasir alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum og í mörgum sérgreinum lækna blasir einnig við skortur. Þrátt fyrir nýja kjarasamninga þarf að gera enn betur til að laða að nægan fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem sér störf hér á landi sem heillandi kost þar sem starfsumhverfi og aðbúnaður gerir þeim bæði kleift að veita faglega og góða heilbrigðisþjónustu og lifa mannasæmandi og góðu lífi. Þekking sem byggir á áratuga rannsóknum um heilbrigt og aðlaðandi starfsumhverfi gerir okkur kleift að ráðast í úrbætur sem fela í sér langtímalausnir til hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Um leið og ráðist er í markvissar aðgerðir til að efla mannauð heilbrigðisþjónustunnar er mikilvægt að bæta skipulag og stefnu þannig að skjólstæðingarnir njóti þekkingar og færni þverfaglegs hóps starfsfólks, ekki síst innan heilsugæslunnar. Þar er mikilvægt að flétta saman þjónustu lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, sálfræðinga, félagsráðgjafa og fleiri stétta þannig að einstaklingar hafi aðgang að sem allra bestri þjónustu á hagkvæman og skilvirkan hátt. Þverfagleg nálgun og góð teymisvinna getur tryggt að snemma sé gripið inn í vanda og komið í veg fyrir að leita þurfi flókinna og dýrra úrræða.

Það er mikið fagnaðarefni að búið er að samþykkja nýtt frumvarp um greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu og þar með ætti að vera úr sögunni að einstaklingar standi frammi fyrir ofurháum reikningum vegna heilbrigðisþjónustu. Þak á upphæð sem hver einstaklingur greiðir hefur verið lækkað en betur má ef duga skal. Meðal þess sem þarf að vinna að er að þjónusta sálfræðinga falli undir sama hatt og önnur þjónusta sem og tannlæknaþjónusta. Það er algjört forgangsverkefni að tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu með lágmarkskostnaði einstaklinganna.

Heilbrigðisþjónusta hér á landi er að stórum hluta veitt á vettvangi sjálfstæðs reksturs en til þess að tryggja jafnt aðgengi, gæði og hagkvæma nýtingu fjármagns er mjög mikilvægt að bæta lagalega umgjörð og eftirlit. Sömuleiðis þarf að skerpa reglur og leiðbeiningar um samspil og samvinnu opinberrar þjónustu og þjónustu sem veitt er á stofum t.d. varðandi mat á gæðum, eftirfylgni og viðbrögð við frávikum og fylgikvillum.

Um leið og Björt framtíð fagnar nýjum áformum um byggingar öldrunarheimila er mjög miklvægt að stórefla heimaþjónustu til aldraðra. Með einstaklingsmiðaðri heimaþjónustu er stutt við sjálfstæði og lífsgæði aldraðra og sýnt hefur verið fram á að heimaþjónusta er hagkvæmt úrræði og getur í mörgum tilvikum hentað mun betur en vistun á stofnun.

Björt framtíð leggur áherslu á langtímahugsun í heilbrigðisþjónustu. Með því að byggja á reynslu og nýta nýja þekkingu til að endurskoða skipulag og starfsumhverfi getum við laðað að hæfileikaríkt heilbrigðistarfsfólk sem getur veitt örugga og góða þjónustu og staðið vörð um lífsgæði skjólstæðinganna og eflt um leið sín eigin lífsgæði, innan og utan vinnunnar.

thessi-aetlar-ad-breyta-stjornmalunum

SG-Anna-Gyda

Bættu við athugasemd