Í ágætri grein sinni á dögunum skrifaði Bolli Pétur Bollason (Fréttablaðið 30.3.2013 ) að velferðin sé í eðli sínu hugsjón sem byggir á gömlum gildum um umhyggju, sjálfræði og ábyrgð. Ég tek undir orð Bolla og lít svo á að lesa megi þroska hvers samfélags úr því hversu vel er hlúð að hugsjón velferðarinnar. Til þess að hugsjón sé til gagns þarf hún að vera skýr, þeir sem eiga hugsjónina þurfa að hafa sömu myndina, þannig verður hún sameiginleg. Í hverju samfélagi, smáu eða stóru eru nokkur atriði sem skipta mestu máli fyrir velferð og ofarlega á blaði er velferð barna og velferð aldraðra. Okkur greinir líklega ekki á um að við viljum velferð barna og aldraðra en hvernig sjáum við þessa velferð fyrir okkur?
Hversu skörp er sýn okkar á hugsjón velferðarinnar fyrir börn og aldraða? Er þetta óljós skíma eða er sýnin skörp og nokkuð vel upplýst um það hvað felst í velferð barna og aldraðra? Það sem var til dæmis viðtekið í uppeldi barna í á sjöunda áratugnum væri líklega ekki allt samþykkt nú, t.d. að senda fimm ára Reykjvíkurbarn með miða yfir götu í næstu búð til að kaupa egg, smjörlíki og kamel. Eða að senda sama barn með Leið 4 austur í Kleppsholt í fimmára afmæli og beðin um að standa hjá vagnstjóranum sem myndi minna barnið á þegar rétta stoppistöðin væri komin og benda á hvar húsið með afmælinu væri. Svona sjálfstæðir leiðangrar gerðu fimm ára barn á sjöunda áratugunum líklega nokkuð sjálfstætt og sjálfbjarga en flokkast nú með vafasömum uppeldisaðferðum. Allt er breytt, við vitum betur, gerum aðrar kröfur og sjáum velferð í nýju ljósi.
Velferð barna mótast af jafnvægi frelsis og aðhalds. Ramminn mótast af aðstæðum og þekkingu. Börn læra að bjarga sér, velja og að skapa nýtt, fylgja reglum og axla ábyrgð. Og til þessa þurfa þau stuðning og umönnun. Sömu lögmál gilda á hvaða aldri sem er. Tökum dæmi af velferð aldraðra. Hver er sýn okkar á velferð aldraðra? Hvernig mótast hugsjón okkar um velferð aldraðra? Mótast hugsjónin af aðstæðum okkar nú, viðhorfum og þekkingu? Velferð aldraðra felst í sjálfsbjargargetu og frelsi til að velja þjónustu ef sjálfsbjargargetan minnkar. Velferði felst í að geta búið heima hjá sér og borið ábyrgð á sjálfum sér með aðstoð sem til þess þarf. Velferðin felst í því að eiga hlutdeild í sameiginlegum sjóði sem tryggir fjárhagslegt sjálfstæði á efri árum.
Ef hugsjónin um velferð aldraðra er eitthvað á þessa leið er fróðlegt að spyrja hvort áherslur hér á landi undanfarin ár hafi endurspeglað þessa hugsjón? Hér á landi eru fleiri hjúkrunarrými fyrir hvern íbúa en almennt tíðkast á Norðurlöndum. Samt eru mjög margir á biðlista eftir slíkri þjónustu. Sumir þiggja þjónustu sem í raun hentar þeim ekki, t.d. þjónustu bráðasjúkrahúsa. Á sama tíma er þjónusta til eldri borgara sem búa heima hjá sér minni hér en almennt gerist í nágrannalöndum.
Margt bendir til þess að hópur eldri borgara sé háður daglegri umönnun fjölskyldu, oft kvenna í viðkomandi fjölskyldu. Þessir ættingjar eru nú, eins og börnin á sjöunda áratugnum, sendir, ótt og títt, yfir götuna út í næstu búð með miða til að kaupa lyfjabox, göngugrind og öryggishnapp. Nánustu ættingjar hins aldraða eru beðnir um að standa hjá vagnstjórum ýmsu leiða velferðarþjónustunnar með von um að koma auga á úrræði fyrir hinn aldraða, – og oft er leiðin löng. Hvaða áhrif hefur þetta á daglegt líf þessara ættingja, atvinnuþátttöku og líðan? Væri hagstæðara fyrir fjölskyldulíf og atvinnumál að aldraðir hefðu betri aðgang að faglegri aðstoð heima fyrir? Má vera að hugsjón okkar hér sé ekki eins skörp og gæti verið? Getur verið að við þurfum að endurskoða hugsjónin um velferð alraðra í takt við kröfur, viðhorf og þekkingu nú?
Það eru til ýmsar leiðir sem tryggja öldruðum að geta búið heima hjá sér með aðgang að þjónustu eins og hentar hverjum og einum. Hér má nefna enn betri samvinnu heilsugæslu og félagslegrar þjónustu og betri nýtingu tækni. Þjónustan þarf að endurspegla frelsi og ábyrgð allra sem koma að máli og umhyggju fyrir einstaklingunum. Umhyggju fyrir hinum aldraða og fjölskyldu hans. Frelsi hins aldraða og fjölskyldu hans. Ábyrgð hins aldraða, fjölskyldu hans og ekki síst samfélagsins.
Samfélagið sýnir ábyrgð gagnvart velferð með því að tryggja efnhagslegan stöðugleika, fjölbreytt atvinnulíf, réttmætan arð af auðlindum og öguð vinnubrögð þannig að verðmæti skapist sem undirstaða velferðar. Ábyrgð og agi í efnahagsmálum er undirstaða velferðar. Margt bendir til þess að velferðarþjónusta sem eflir frelsi og sjálfsbjargargetu sé hagkvæm og minnki kostnað við flóknari og dýrari þjónustu. Stefna í velferðarmálum þarf að endurspegla hugmyndir okkar um frelsi og sjálfræði. Skipulag velferðarþjónustu þarf að mótast af umhyggju, mannúð og virðingu fyrir hverjum og einum. Fjárhagslegar áætlanir þurfa að taka mið af þörfum einstaklinganna sem þiggja þjónustu og réttlátri umbun þeirra sem þjónustuna veita. Þannig verður bjart yfir hugsjón velferðarinnar.